Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,5 prósent það sem af er degi. Viðmælendur á fjármálamarkaði rekja lækkunina til ummæla Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að hann vonist til að sala ríkisins á Íslandsbanka geti hafist á næstu vikum.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði óttast að möguleg sala á Íslandsbanka til innlendra fjárfesta kunni að „draga enn frekar úr því litla framboði af fjármagni sem leitar á markaðinn um þessar mundir,“ eins og einn komast að orði í samtali við Fréttablaðið.

Sýn hefur lækkað um 3,4 prósent í 35 milljón króna viðskiptum, Hagar um 2,6 prósent í 90 milljón króna viðskiptum og Eimskip um 2,5 prósent í 20 milljóna króna viðskiptum, samkvæmt upplýsingum á Markadurinn.is

Á sama tíma er Brim eina félagið sem hefur hækkað. Hækkunin nemur 3,2 prósentum í 93 milljóna króna veltu.