Þetta er merkisdagur á íslenskum hlutabréfamarkaði en markaðurinn er nú í fyrsta sinn tekinn inn í Frontier markets hlutabréfavísitölur MSCI. Þetta segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er mjög góð viðurkenning fyrir þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað en í stærra samhengi er þetta eitt skref í áframhaldandi uppbyggingu á markaðnum sem miðar að því að klífa gæðastigann og færast á næsta þrep. Það myndi muna gríðarlega miklu. Þessi vinna felst í því að vinna áfram að því að efla og bæta markaðinn, fá inn fleiri skráningar, efla verðmyndun, m.a. með því að auðvelda verðbréfalán og auka aðkomu almennings, t.d. í gegnum séreignarsparnað, og auka virkni gjaldeyrismarkaðar,“ segir hann.

Magnús segir aðspurður að mikil hlutabréfaviðskipti á markaði í þessari viku og styrking krónu séu vísbendingar um að erlendir aðilar hafi komið inn að einhverju marki sem rekja megi til MSCI. „En við höfum því miður ekki beina sýna á það,“ segir hann.

Magnús segir að tíðindin séu jákvæð fyrir hlutabréfamarkaðinn. „Við væntum innflæðis í gegnum vísitölusjóði og að einhverju leyti líka óbeint vegna stimpilsins sem fylgir því að vera inn í MSCI vísitölunum.“