Nýr vikulegur frétta- og viðtalsþáttur um íslenskt viðskiptalíf í umsjón ritstjóra og blaðamanna Markaðarins, sem hafa allir víðtæka reynslu af viðskiptablaðamennsku, hefur göngu sína í dag, miðvikudaginn 10. mars, á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, klukkan 21.

Í þættinum verður farið yfir helstu fréttir Markaðarins, ásamt öðru því sem hæst ber hjá í efnahagslífinu hverju sinni, og fengnir verða meðal annars fjárfestar, sérfræðingar og stjórnendur íslenskra fyrirtækja til að kryfja málin til mergjar með þáttastjórnendum.

„Viðskiptaþátturinn mun breikka ásýnd Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins, og styrkja stöðu þess enn frekar sem helsti vettvangur umfjöllunar um það máli skiptir í íslensktu viðskiptalífi. Við erum fullir tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni,“ segir Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri verður fyrsti gestur þáttarins þar sem hann mun fara yfir stöðu og horfur í hagkerfinu einu ári eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.