Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands og Elías Blöndal Guðjónsson, vindlainnflytjandi, voru gestir í Markaðnum á Hringbraut á miðvikudagskvöld.

Elías hefur stefnt íslenska ríkinu vegna verklags Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins við álagningu á þær vörur sem fyrirtæki hans flytur til landsins. Krefst ÁTVR þess að fyrirtæki Elíasar selji stofnuninni vörurnar og kaupi þær svo aftur að genginni 18 prósenta heildsöluálagningu. Elías heldur því fram að fyrirtæki hans sé innflytjandi sem selji beint í smásölu til neytenda.

Þar af leiðandi sé ekki lagastoð fyrir heildsöluálagningu. Elías hefur jafnframt sent inn kvörtun til neytendastofu vegna nafngiftar Fríhafnarinnar í Leifssöð, en hann heldur því fram að vörur sem seldar eru í fríhöfninni séu sannarlega skattlagðar.

„Menn hafa gleymt áföllunum og ókostunum við sósíalismann"

Hannes Hólmsteinn sagði frá nýútkomnum bókum sínum sem lýsa kenningum 24 fræðimanna á sviði frjálslyndrar íhaldssemi.

Prófessorinn heldur því jafnframt fram að tíðarandi á Vesturlöndum undir lok síðustu aldar hafi haft mikið að segja um hversu aðsópsmikill hann hafi verið í þjóðmálaumræðu á undanliðnum áratugum:

„Ástæðan til þess að ég er stundum talinn áhrifamikill á Íslandi, er held ég ekki að ég hafi verið svona snjall. Ástæðan er sú að ég var, kannski fyrir tilviljun, samferða tíðarandanum. Það var á þessa leið, á seinni hluta níunda áratugarins og allan tíunda áratuginn og raunar fram að fjármálakreppunni 2008.“

Tíðarandinn sé hins vegar breyttur í dag. „Menn hafa gleymt áföllunum og ókostunum við sósíalismann. Að vísu dettur engum í hug lengur, að taka upp það sem var stefnuskrá sósíalista alla 19. og 20.öldina sem var að ríkið eignaðist framleiðslutækin og ræki þau. Það er ekki á dagskrá.“

Markaðurinn er sýndur alla miðvikudaga klukkan 21:00 á Hringbraut.