Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, var gestur Markaðarins á Hringbraut í gær og ræddi meðal annars fjárfestingar lífeyrissjóðanna í sjávarútvegi og samspil samkeppnislöggjafar og laga um hámarkseignarhald á aflaheimildum.

Guðmundur hætti sem forstjóri Brims í apríl á síðasta ári en tók aftur við starfinu í janúar á þessu ári. Aðspurður segir Guðmundur að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á kaupum Brims á fiskvinnslunni Kambi hafi orsakað þá atburðarrás.

„Þegar við kaupum Kamb í desember 2019, sem er fiskvinnsla í Hafnarfirði, erum við búin að ákveða að fara með Norðurgarð, vinnsluna hér í Reykjavík, í miklar endurbætur sumarið 2020. Okkur fannst það erfitt að stórt fyrirtæki eins og við værum ekki með vinnslu til að þjónusta okkar kúnna allt sumarið 2020 með ferskan fisk."

,,Svo að við kaupum Kamb og í eðlilegu umhverfi ætti Samkeppniseftirlitið að samþykkja það á nokkrum vikum. Af því að Samkeppniseftirlitið veit að það er ekki samþjöppun á sjávarútvegsmarkaði á Íslandi [...] Þá fóru þeir að rannsaka hvort við værum að fara yfir löglega aflahlutdeild. Þeir þurfa ekki sex mánuði til að rannsaka það. Þeir vissu það fyrirfram að kaup okkar á Kambi skiptu engu máli upp á samþjöppun í sjávarútvegi," segir Guðmundur.

,,Er þetta út af mér?"

Guðmundur segir að margir sem starfa í sjávarútvegi hér á landi hafi lent í átökum við ríkisstofnanir og eftir margra mánaða bið eftir svörum frá Samkeppniseftirlitinu hafi hann ákveðið að stíga til hliðar í von um að forða Brim frá deilum sem gætu dregið dilk á eftir sér.

,,Svo bíður og bíður og ég fer að hugsa – er þetta út af mér? Svo fór ég að hugsa um marga kollega sem fara í stríð við ríkisstofnun. Það er eins og það fari áratugur í stríð sem skilar engu. Svo ég hugsaði með mér, ég ætla ekki að fara í stríð við ríkisstofnun sem ég á engan séns á að vinna. Ég fékk eins konar skilaboð um það að ég væri aðaleigandi Brims og ég væri líka forstjóri og þætti þetta eitthvað grunsamlegt," segir Guðmundur.

Lítil samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi

Hann ákvað því að fara gaumgæfilega yfir samkeppnislög og reglugerðir áður en hann tók ávörðun um framhaldið.

,,Svo ég tók mér bara nokkra mánuði í að lesa öll lög um Samkeppniseftirlitið, hvernig þetta kom til, allar ræður á Alþingi um málið frá 1993 og fékk líka hjálp. Ég vissi til dæmis ekki hvað HHI-stuðull er, en það er alþjóðlegur stuðull um hvað er mikil samþjöppun á markaði. Ef þú reiknar hann út fyrir sjávarútveginn, þá sést að það er bara mjög lítil samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi."

,,Þannig að ég ákvað bara að hætta og hugsa þessi mál aðeins. Síðan er stjórnin tilbúin að fá mig aftur inn til starfa og þá var ég með skýra sýn á [samkeppnismálin]. Mér finnst vont að vinna ef ég skil ekki hvað ég er að gera,“ segir Guðmundur."

Markaðurinn er sýndur alla þriðjudaga klukkan 21:00 á Hringbraut.