Jóhann G. Möller, framkvæmdastjóri Stefnis, sagði á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í síðustu viku að markaðsvirði fyrirtækja í Kauphöllinni væri að nálgast þær hæðir sem það náði á árunum 2006 og 2007, en þó með heilbrigðari hætti en þá var.Í samtali við Markaðinn segir hann að einn þáttur sem spilar þar inn í sé að samsetning vísitölunnar er dreifðari á atvinnugreinar og félög.

„Um þessar mundir er samsetning félaganna dreifðari. Á sínum tíma samanstóð vísitalan mestmegnis af fjármálafyrirtækjum og fjárfestingafélögum, eða um 90 prósent, en núna erum við að sjá minna hlutfall í þeim geira og samsetning er því dreifðari. Flóra atvinnugreina er því fjölbreyttari."

Jóhann G. Möller, framkvæmdastjóri Stefnis,

Einnig bendir hann á að mun hærra hlutfall félaga í Kauphöllinni greiði nú arð en áður tíðkaðist þannig að aðhald fjárfestanna er mikið við að félögin séu með góðan rekstur sem skili viðunandi hagnaði, sem sé svo greiddur að hluta til fjárfesta.Á fundinum var jafnframt rætt um það að miklar hækkanir hafa verið á mörkuðum hér á landi undanfarið. Jóhann sagði að það væru þó ekki merki um óheilbrigði í kennitölum félaganna, mörg félög hafi verið að uppfæra afkomuspár.

„Verðlagningin er viðunandi, síðan hafa fyrirtækin verið að uppskera eftir hagræðingaraðgerðir undanfarinna fimm ára meðal annars sem svar við dýrum kjarasamningum. Markaðurinn hefur tekið vel í það.Við sáum að árin milli 2016 og 2019 voru mögur á hlutabréfamarkaði, þau voru betri víða erlendis. Þannig að ef við skoðum lengra tímabil þá væri þróunin með svipuðu móti hér og á öðrum vestrænum mörkuðum,“ segir Jóhann í samtali við Markaðinn og bætir við að hann sé bjartsýnn á langtímaþróun markaðarins.

„Það er auðvitað erfitt að segja til um hver þróunin verður nákvæmlega. En ég held að þróunin verði jákvæð þegar litið er til lengri tíma.“