Jakobsson Capital metur gengi hlutabréfa í Reitum á 88,4 krónur á hlut sem er 23 prósent yfir núverandi markaðsgengi félagsins. Þetta kemur fram í nýju verðmati sem gefið var út þann 17. september síðastliðinn.

Fram kemur í verðmatinu að markaðsgengi fyrirtækisins sé enn langt undir verðmatsgengi, að svo hafi verið í dágóðan tíma og að sú þróun sé líkleg til að halda áfram.

Markaðsvirði félagsins nemur tæplega 57 milljörðum króna en verðmatið hljóðar upp á 69 milljarða.

Þá kemur fram að það sé „allt gott að frétta“ af félaginu. „Á öðrum ársfjórðungi 2021 var afkoma Reita í samræmi við væntingar og ekki mikið um krassandi tíðindi. Áhrif Covid-faraldursins hafa farið minnkandi á afkomu félagsins og er vannýting eigna félagsins minni en á sama ársfjórðungi árið 2020 eða 5,5% á móti 5,0% í ár,“ segir í verðmatinu.

Jafnframt er greint frá því að verðmatsgengið hafi hækkað lítillega frá síðasta verðmati eða úr 86,9 krónum á hlut í 88,4 krónur á hlut. Verðmat Jakobsson Capital á Reitum eftir fyrsta ársfjórðung 2021 var 67,6 milljarðar króna og nú eftir uppgjör annars ársfjórðungs er verðmatið 68,8 milljarðar króna.

Stjórnendur Reita telja að fjórða bylgja Covid muni ekki hafa jafnmikil áhrif á leigutaka eins og hinar bylgjurnar.

„Leigutekjur Reita námu 5.571 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2021 sem er 2,4% aukning miðað við sama tíma í fyrra,“ segir í verðmatinu.

Þá kemur fram að þó svo leigutekjur hafi verið hærri sé miðað við sama tíma og í fyrra hafi rekstrarhagnaðurinn ekki verið það.

„Þrátt fyrir að leigutekjur hafi verið hærri nú miðað við sama tíma í fyrra var rekstrarhagnaður (NOI) það ekki. Skrapp hann saman um tæp 2% milli ára. Það er hins vegar góð skýring á því, Reitir fengu endurgreidd 200 milljónir króna fasteignagjöld í fyrra sem hefur bein áhrif á rekstrarhagnað.“

Í fjárfestakynningu Reita kemur fram að útleiga hafi gengið vel og að Reitir hafi fjárfest í verslunarkjarna sem hýsir meðal annars Krónuna í Mosfellsbæ.

„Vænt áhrif þessa á rekstrarhagnað eru tæplega 200 milljónir króna á ári. Reitir áætla að fá húsnæðið afhent í byrjun fjórða ársfjórðungs og var rekstraráætlun meðal annars endurskoðuð með þessa fjárfestingu í huga,“ segir í verðmatinu.

Jafnframt er greint frá því að markaðsgengi Eikar hafi lengi legið vel undir verðmatsgengi en í tilfelli Regins hafi markaðsgengi og verðmatsgengi verið svipað.