Ríkisstjórnin stefnir að því að selja eftirstandandi 65 prósenta hlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum ef markaðsaðstæður verða ákjósanlegar.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hlutabréfa og blandaðra sjóða hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni, segir að markaðsaðstæður séu vitanlega ákjósanlegar nú.

„Þar sem bankinn er í góðum og batnandi rekstri þá eru markaðsaðstæður ákjósanlegar núna. Bankarnir eru að koma vel út úr Covid-krísunni og mun betur en á horfðist,“ segir hann og bætir við að á næsta ári sé spáð góðum hagvexti þannig að viðspyrnan í efnahagslífinu ætti að vera kröftug og gangur bankanna ætti að vera góður.

„Jafnframt vinnur hóflega hækkandi vaxtastig með þeim. Ætli þetta verði þá ekki gert í tveimur bitum og fyrri vonandi strax á fyrri hluta ársins 2022. Eins og ég sagði teldi ég eðlilegast að þetta væri gert eftir arðgreiðslu, vonandi af stærri gerðinni.“Hann bætir við að umfram eigið fé bankans sé líklega um 40 milljarðar svo umfangið sem á eftir að selja sé töluvert.

„Markaðsvirði 65 prósenta hlutar er um 160 milljarðar miðað við gengið í dag og það er skemmtileg tilviljun að það er nánast sama upphæð og heildarmarkaðsvirði Íslandsbanki var í útboðinu sumar. Það er líka ótrúlegt að rifja það upp að eftirspurnin var tæplega 500 milljarðar í útboðinu en það var auðvitað fyrir skráningu og eiginlegt markaðsverð.“

Hann segir jafnframt að sala á hlut ríkisins í Landsbankanum sé seinni tíma mál og um það sé líklega samstaða í ríkisstjórninni.