Hlutabréfavísitölur í Evrópu og Bandaríkjunum hafa lækkað eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði að leggja stighækkandi innflutningstolla á vörur frá Mexíkó. Bílaframleiðendur og birgjar þeirra lækkuðu hvað mest.

Stefnt er á að tollheimtan hefjist 10. júní og fari hækkandi þar til Mexíkó hefur gripið til fullnægjandi aðgerða til að stemma stigu við ólöglega innflytjendur frá landinu til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í erlendum fjölmiðlum á borð við Financial Times, The Wall Street Journal og BBC.

„Við höfum trú á að Mexíkó geti og muni koma Bandaríkjunum hratt til hjálpar til að stöðva þetta langvarandi, hættulega og ósanngjarna vandamál“

„Við höfum trú á að Mexíkó geti og muni koma Bandaríkjunum hratt til hjálpar til að stöðva þetta langvarandi, hættulega og ósanngjarna vandamál,“ sagði Trump á Twitter.

Fyrst verður tollurinn fimm prósent, hækkar í 10 prósent í júlí, verður 15 prósent í ágúst, 20 prósent í september og 25 prósent í október ef ekki verður gripið í taumana.

Forseti Mexíkós, López Obrador, sagði að það þyrfti að sýna hyggindi og ábyrgð í samskiptum á milli landanna tveggja. Hann muni senda utanríkisráðherra landsins til Washington til að ræða samkomulag sem verði til hagsbóta fyrir löndin tvö.

Obrador gagnrýndi einnig framferði Trumps og sagði að félagsleg vandamál verði ekki bætt með skattheimtu eða þvingunum. Sagði hann að forseti Bandaríkjanna væri að snúa landi sem hafi verið bræðralag innflytjenda í gettó.

Kristina Hopper hjá Invesco sagði að innflutningstollarnir muni hafa áhrif á einkaneyslu og hagnað fyrirtækja. „Það er verið að nýta tæki til að móta viðskiptastefnu til að framfylgja stefnu sem ekki tengist viðskiptum. Það fordæmi sem veldur áhyggjum, nú þurfa fjárfestar að velta vöngum með hvaða öðrum hætti sé hægt að nýta tolla,“ segir hún.

Martin Moeller hjá Union Bancaire Privée sagði að það að nota tolla til að hafa áhrif á stefnu er varða innflytjendamál sýni að Hvíta húsið sé reiðubúið til að nýta viðskiptahagsmuni vinna málum framgang. Hann segir að mögulega muni Bandaríkin beita sömu meðulum til að knýja í gegn aukin framlög til hernaðarmála.