Nikkei 225 vísitalan í Tókíó hækkaði um tæp tvö prósent. Í London hafði FTSE 100 vísitalan hækkað um næstum þrjú prósent upp úr hádeginu, DAX vísitalan í Frankfurt um rúm tvö prósent og í París hafði CAC 40 vísitalan hækkað um 2,3 prósent.

Hér á Íslandi hafði Úrvalsvístalan hækkað um ríflega tvö prósent upp úr hádeginu og öll félögin í vísitölunni voru hærri en við lokun markaðarins í gær.

VIX vísitalan í Chicago mælir væntingar markaðarins til óstöðugleika, eða flökts, næstu 30 daga. Fjárfestar nota VIX til að meta áhættu og óvissu á mörkuðum. Í stað þess að byggja á sögulegu flökti er VIX vísitalan mæld út frá verðlagningu afleiða, eða framvirkra samninga með hlutabréf.

Í venjulegu árferði sveiflast VIX gjarnan á bilinu 10-15. Í október 2008 skaust hún upp í tæplega 80, sem er met. Næsthæsta gildi VIX kom 6 mars 2020, eftir að Covid faraldurinn skall af fullum þunga á vesturlöndum. Síðan þá hefur vísitalan að mestu haldist um og yfir 20 en stendur nú í 31 eftir að hafa skotist upp í tæplega 37 í gærmorgun.

VIX segir okkur að markaðurinn telur talsverða óvissu vera fram undan og reiknar með að verð hlutabréfa flökti nokkuð, Því fer hins vegar fjarri að Úkraínu stríðið valdi skelfingu og óðagoti á mörkuðum, líkt og gerðist í október 2008 og í mars 2020.