Forstjóri Kviku banka segir ósmekklegt af Arion banka að líkja Kviku við Sparisjóð Keflavíkur og fallna bandaríska fjárfestingabankann Lehman Brothers. Staðan í bankakerfinu sé allt önnur en fyrir fjármálahrunið og og regluverkið gjörbreytt. Því séu þessi fjármálafyrirtæki ósamanburðarhæf.

Fréttablaðið greindi í dag frá því að stóru bankarnir vildu að fyrirhuguð lög um stöðutöku kerfislega mikilvægra banka næðu einnig yfir Kviku. Kvika skeri sig úr hvað varðar umfang fjárfestingarbankastarfsemi og hafi verið í mikilli sókn á innlánamarkaði. Í umsögnum um lagaáformin gekk Arion banki hvað lengst.

„Reynslan sýnir að gríðarlegt tjón getur hlotist af fjármálafyrirtækjum sem ekki teljast kerfislega mikilvæg og má í því sambandi nefna tjón ríkissjóðs af Sparisjóði Keflavíkur. Einnig sýnir reynslan að mikið tjón getur hlotist af keðjuverkandi áhrifum af falli fjármálafyrirtækjanna sem ekki teljast kerfislega mikilvæg og má þar nefna Lehman Brothers í Bandaríkjunum,“ sagði í umsögn bankans.

„Það er ósmekklegt að gera mikið úr mögulegri áhættu á efnahagsreikning okkar og líkja okkur við Lehman og Sparisjóð Keflavíkur. Það er allt önnur staða núna en fyrir 15 árum síðan þegar lágmarkseiginfjárkrafa í bankakerfinu var langt undir 10 prósentum. Styrkleikar fjármálakerfisins nú er meðal annars sterk eiginfjárstaða banka. Okkar eiginfjárkröfur eru yfir 20 prósent og ef eftirlitsaðilar telja að áhættan sé að aukast þá hækka kröfurnar,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, í samtali við Fréttablaði.

„Ef það er vilji til þess að ræða um veikleika í bankakerfinu þá myndi ég frekar ræða um skort á samkeppni. En Kvika hefur komið með öflugum hætti inná innlánamarkað og boðið ný tækifæri fyrir viðskiptavini.“

Heildareignir Kviku banka námu 115,1 milljörðum króna í lok síðasta ársfjórðungs og eigið fé samstæðunnar nam 13,2 milljörðum króna. Til samanburðar námu heildareignir Arion banka 1.233 milljörðum króna og eigið fé nam 195 milljörðum króna.

Kvika birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í dag eftir lokun markaða.