Verðbólguþrýstingurinn kann að vera margþættari en aprílmæling Hagstofunnar gefur til kynna. Enn er skrið á þrengri mælikvörðum sem undanskilja húsnæðisliðinn á sama tíma og efnahagshorfur fara batnandi víða um heim og skarpar hækkanir hrávöruverðs draga úr þeim hjaðnandi áhrifum sem gengisstyrkingu er ætlað að hafa.

Hagstofan greindi frá því í síðustu viku að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 0,71 prósent í apríl. Tólf mánaða verðbólga hækkaði því úr 4,3 prósentum í 4,6 prósent. Verðbólgumælingin var langt umfram væntingar greinenda.

„Ef við skoðum aprílmánuð einan og sér þá var framlag húsnæðisliðarins töluvert. En verðbólguþrýstingurinn er margþættur,“ segir Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá Akta sjóðum.

Hækkandi fasteignaverð er megindrifkraftur verðbólgunnar í apríl, en reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5 prósent í mánuðinum sem hafði áhrif til 0,4 prósent hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Birgir varar við að einblína um of á þróun fasteignaverðs. Innlent verðlag án húsnæðis, sem hefur 45 prósent vægi í vísitölu neysluverðs, hafi sem dæmi farið úr 1,8 prósenta árshækkun í júlí og upp í 3,4 prósent í apríl. Þessi liður er því kominn vel yfir 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans og hefur árshækkunin á innlendu verðlagi ekki verið meiri síðan í byrjun árs 2015.

Þá bendir hann á að kjarnaverðbólga hafi hækkað enn meira í apríl og árstakturinn sé nú 5,3 prósent. Kjarnaverðbólga er þrengri mælikvarði á almennar verðlagsbreytingar. Hún undanskilur þannig áhrif þátta sem Seðlabankinn hefur enga stjórn á, til dæmis verðum á innfluttum matvælum og bensíni sem ráðast á heimsmarkaði, auk þeirra þátta sem hann hefur bein áhrif á með vaxtaákvörðunum sínum.

grafík mark 2.jpg

„Krónan hefur verið að styrkjast en ef við skoðum hrávöruvísitölur þá hafa verðin samt hækkað í krónum þrátt fyrir þessa gengisstyrkingu því afurðaverð heldur áfram að hækka. Nýjustu kannanir á iðnfyrirtækjum á heimsvísu sýna einnig að verð á fullunnum afurðum þeirra hefur aldrei hækkað eins skarpt í einum mánuði og í apríl frá því að mælingar hófust 2009. Styrking krónunnar,“ bætir Birgir við, „hefur því ekki endilega haft jafn hjaðnandi áhrif á innflutta verðbólgu og ætla mætti.“

„Þessar tölur bera með sér að verðbólgan verði þrálátari en áður var búist við,“ segir Ingólfur Snorri Kristjánsson, forstöðumaður skuldabréfastýringar hjá Íslandssjóðum. „Styrking krónunnar gæti togað hana eitthvað niður en ég er ekki viss um að það dugi eitt og sér.“

„Það verður skýrara með hverjum degi hvað þarf að gera og það er ekki endilega vinsæl ákvörðun.“

Birgir nefnir að erlendir seðlabankar, til dæmis Seðlabanki Svíþjóðar í síðustu viku, hafi hækkað hagvaxtarspár fyrir heimsbúskapinn fyrir þetta og næsta ár. „Það er ekki ólíklegt að spárnar frá Seðlabankanum sýni svipaða þróun eftir tvær vikur. Ef hagvaxtarspár batna hérlendis þá gæti framleiðsluslakinn sem spáð er 2022 horfið að fullu. Þá verður erfitt að horfa fram hjá því að kjarnaverðbólga sitji í 5,3 prósentum,“ segir Birgir.

Þegar Seðlabankinn lækkaði vexti í nóvember var vísað til þess að kjölfesta verðbólguvæntinga væri traust. Síðan þá hafa verðbólguvæntingar, á markaði og samkvæmt könnunum á heimilum og fyrirtækjum, hækkað.

„Það virðast vera meiri líkur en minni á því að þær hækki enn frekar á næstu vikum. Kjölfesta verðbólguvæntinga er því alls ekki eins traust og hún var fyrir nokkrum mánuðum síðan,“ segir Birgir.

„Það verður skýrara með hverjum degi hvað þarf að gera og það er ekki endilega vinsæl ákvörðun,“ segir Birgir og á þar við vaxtahækkun. „Bankinn má ekki við því að fólk missi trú á verðbólgumarkmiðinu.“

Þjóðhagsráð, sem er skipað forystumönnum ríkisstjórnarinnar og stéttarfélaganna, seðlabankastjóra og framkvæmdastjóra SA, mun koma saman til fundar á morgun samkvæmt heimildum Markaðarins. Þjóðhagsráð fjallar um samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni.

Spurður hvort Seðlabankinn sé líklegri til að hækka vexti heldur en að herða veðsetningarhlutföll fasteignalána til að kæla fasteignamarkaðinn bendir Birgir á að það virðist alls ekki vera mikil bólumyndun á fasteignamarkaðinum. „Nærtækara væri að hækka vexti ef Seðlabankinn vill vinna á verðbólgunni og halda verðbólguvæntingum í skefjum.“

Ingólfur Snorri segir að bankinn muni örugglega grípa til aðgerða. „Hann getur hækkað vexti en atvinnuleysi er hátt og fyrirtæki þurfa enn á lágum vöxtum að halda til að koma fjárfestingu af stað. Hann getur einnig gripið til þjóðhagsvarúðartækja t.a.m. lækkað veðsetningarhlutföll fasteignalána til að bregðast við miklum hækkunum þar.“