Verðbólguspár viðskiptabankanna gera ráð fyrir að verðbólgan sé að toppa eða við það að toppa. Allar spárnar byggja á ákveðnum forsendum um eldsneytisverð, gengi krónunnar, húsnæðisverð og verðbólgu í okkar helstu viðskiptalöndum.

Í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í lok júlí kom fram að ársverðbólgan hafi staðið í 9,9 prósentum en nýjar tölur verða birtar í lok ágúst.

Arion banki spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 prósentustig milli mánaða í ágúst. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan standa í stað í 9,9 prósentum. Aðalhagfræðingur Arion banka segir að útlit sé fyrir að toppi verðbólgunnar sé náð en þó megi lítið út af bregða.

„Í ljósi þess að toppurinn er flatur í 9,9 prósentum fram á vetur þarf lítið út af að bregða til að hann hliðrist og fari í tveggja stafa tölu,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, og nefnir sem dæmi að ef útsölulok komi fram af meiri þunga í ágúst en gert var ráð fyrir, myndi það þýða 10 prósenta verðbólgu strax í ágúst.

„Að þessu sinni vegur eldsneytisverð til lækkunar vísitölunnar, þó umræðan hér á landi beri þess ekki endilega merki, sem og flugfargjöld til útlanda. Þá benti mæling Þjóðskrár á vísitölu íbúðaverðs til nokkuð minni húsnæðisverðshækkana en undanfarna mánuði,“ segir Erna og bætir við að það séu vísbendingar um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að róast. Vísitalan hækkaði um 1,1 prósent sem er mun minni hækkun en síðastliðna mánuði.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

„Vissulega er aðeins um einn mánuð að ræða, og það sumarfrísmánuð flestra landsmanna, en engu að síður er ég þeirrar skoðunar að mælingin gefi vísbendingu að framhaldinu og að hægja muni hratt á markaðinum eftir því sem líða tekur á árið.“

Erna bendir á að mikil tímatöf sé í tölunum sem byggja á þinglýstum kaupsamningum og þriggja mánaða meðaltali. Það þýði að áhrifa af aðgerðum Seðlabankans í júní sé ekki farið að gæta að neinu ráði.„Vaxtahækkunin í júní og hertar lánareglur í kjölfar ákvörðunar fjármálastöðugleikanefndar, eru farnar að hafa áhrif en þau munu ekki koma fram af fullum þunga í opinberum tölum fyrr en í haust.“

Greinendur Jakobsson Capital gera ráð fyrir að tólf mánaða verðbólgan muni mælast 9,8 prósent í næstu tölum Hagstofunnar.

Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, segir ástæðuna fyrir því vera mikil lækkun á eldsneytisverði og vísbendingar um að hægjast hafi á fasteignamarkaðnum.„Ágústmánuður hefur verið lágur í verðbólgu vegna þess að þá eru að koma inn áhrifin af útsölunum og slíkt,“ segir Snorri og bætir við að þróun fasteignaverðs sé lykilbreyta.

Snorri Jakobsson, greinandi Jakobsson Capital.

„Þróun fasteignaverðs mun skipta öllu máli. Verðbólgan án húsnæðis er töluvert lægri og það mun skipta miklu máli. Síðan eru áframhaldandi lækkanir á hrávörumörkuðum sem benda til þess að innflutt verðbólga verði minni svo í rauninni beinast öll spjót að fasteignamarkaðnum,“ segir Snorri og bendir á hann hafi verið að keyra áfram verðbólguna að undanförnu.

„Ég geri ráð fyrir að við séum búin að sjá toppinn, ekki nema eitthvað komi upp á.“

Erna segir að ef hægja muni á hækkunum á húsnæðismarkaðinum muni það hafa veruleg áhrif á verðbólguna þar sem húsnæðisverð hafi verið helsti drifkraftur hennar.

„Sem dæmi, í júlí mátti rekja nánast helming verðbólgunnar til fasteignaverðs svo það segir sig sjálft að ef markaðurinn róast og hægir á fasteignaverðshækkunum mun draga úr verðbólgunni, að öðru óbreyttu.“

Erna bætir við að þróun verðbólgunnar sýni að mistekist hefur að spá fyrir um þróun hennar.

„Það verður að viðurkennast að verðbólgugreinendur hafa átt í stökustu vandræðum með að fanga þróunina undanfarið ár.“

Erna segir að þróun verðbólgunnar erlendis sé áhyggjuefni.

„Það sér ekki fyrir endann á orkukrísunni í Evrópu en ný spá Citigroup gerir ráð fyrir 18 prósenta verðbólgu í Bretlandi í byrjun næsta árs. Staðan er ekki mikið betri á meginlandinu en þar er verð á gasi 14 sinnum hærra en að meðaltali síðastliðinn áratug og engin skýr lausn í sjónmáli. Áhrifin á heimilisbókhald evrópskra heimila eru mikil, en ekki síður á framleiðslu,“ segir Erna og bætir við að í ljósi þess að við eigum mikil viðskipti við Evrópu sé hætta á að við munum halda áfram að flytja inn umtalsverða verðbólgu á komandi mánuðum.

Kjarasamningarnir óvissuþáttur

Snorri segir að ef einblínt sé á fasteignamarkaðinn og innflutta verðlagið, þá megi búast við því að verðbólgan sé að ná hámarki núna en þó séu kjarasamningarnir mikill óvissuþáttur.

„Um þessar mundir er mjög lítið atvinnuleysi svo ég held að samningsstaða verkalýðshreyfingarinnar sé nokkuð sterk og það gæti orðið töluverður þrýstingur á launahækkun.“

Erna segir að margt bendi til þess að kjarasamningslotan í haust verði ansi strembin.

„Þetta er erfiður tími til að ganga inn í kjarasamninga, verðbólgan er mikil, vextir að hækka, húsnæðisverð hátt og mikil spenna á vinnumarkaði, í formi lítils atvinnuleysis og vaxandi vinnuaflsskorts,“ segir Erna og bætir við að verðbólguvæntingar hafi hækkað og allt þetta auki hættuna á víxlverkun launa og verðlags.

„Verði samið um brattar launahækkanir er hætta á að þeim verði í einhverjum tilfellum velt beint út í verðlagið, sem kyndir undir verðbólguna og festir hana frekar í sessi. Of miklar launahækkanir, langt umfram framleiðnivöxt, geta einnig grafið undan samkeppnishæfni landsins, veikt krónuna og þannig haft áhrif á verðbólguna,“ segir Erna og bendir á að atvinnugreinarnar komu misvel undan heimsfaraldrinum, sem geri þetta að sérstaklega vandasömu verkefni.