Það verður víða komið við þegar þau Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, og Guðvarður Gíslason, veitingamaður í Petersen svítunni og Gamla bíó, mæta í þátt Jóns G. í kvöld á Hringbraut. Ferskir viðmælendur sem hafa staðið í ströngu að undanförnu; Nova með árangursríkt hlutafjárútboð og allt komið á fulla ferð aftur í Gamla bíó og Petersen svítunni eftir Covid.

Þátturinn er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 og 23 í kvöld.

Nova verður hringt inn í Kauphöllina með viðhöfn í höfuðstöðvum Nova nk. þriðjudag eftir afar árangursríkt hlutafjárútboð sem lauk í síðustu viku. Yfir 5 þúsund nýir hluthafar bætast í hluthafahóp Nova – og þar af 1.500 viðskiptavinir Nova. Ekki er um nýtt hlutafé að ræða heldur er m.a. stærsti hluthafinn, PT Capital, að minnka við hlut sinn. Alls skipti hlutafé upp á 44,5% um hendur í útboðinu – og fyrir alls 8,7 milljarða króna.

Guðvarður Gíslason, eða Guffi er eins og hann er jafnan nefndur, er með allra þekktustu veitingamönnum landsins. Hann rak ásamt fleirum Gauk á Stöng á sínum tíma – byggði upp veitingastaðina Jónatan Livingstone Mávur og Apótekið – var einnig með alla veitingasölu á Hótel Loftleiðum í áraraðir – og tók svo yfir Gamla bíó eftir að Íslenska Óperan flutti þaðan.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og er endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.