„Þetta eru alltof miklar og kostnaðarsamar varúðarráðstafanir miðað við þá litlu áhættu sem er til staðar,“ segir Hörður Erlingsson, eigandi Ferðaskrifstofu Harðar Erlingssonar. Rúmt ár er síðan ný lög um tryggingar vegna sölu ferðaskrifstofa á pakkaferðum tóku gildi en með gildistöku laganna náði tryggingarskyldan yfir fleiri ferðaþjónustufyrirtæki en áður var.

Þannig þarf fyrirtæki sem selur bæði gistingu og afþreyingu á borð við hestaferð í einum pakka að útvega tryggingu. Fjöldi tryggingarskyldra fyrirtækja var 339 áður en lögin tóku gildi og var gert ráð fyrir að þeim myndi fjölga um tugi eða hundruð eftir gildistökuna.

Samkvæmt nýlegu svari frá Ferðamálastofu nam heildarfjárhæð trygginga ferðaskrifstofa um sjö milljörðum króna. Stofnunin tók þó fram að fjárhæðin gæti breyst ört. Áður en lögin tóku gildi stóð heildarfjárhæðin í 4,3 milljörðum króna og hefur hún því hækkað um tæpa þrjá milljarða króna.

Ásberg Jónsson, eigandi Nordic Visitor, segir að Evrópulöggjöfin, sem íslensku lögin byggja á, hafi verið skrifuð fyrir ferðaskrifstofur sem flytja viðskiptavini út og aftur heim (e. outbound). Hugmyndin að baki lagagreininni er að tryggja viðskiptavini ferðaskrifstofu þannig að unnt sé að endurgreiða þeim eða flytja þá heim komi til gjaldþrots ferðaskrifstofunnar.

„Á Íslandi snýst starfsemin að miklu leyti um að þjónusta ferðamenn sem koma til landsins og eiga flugmiða til baka (e. inbound). Það hefur aldrei komið til þess að Ferðamálastofa hafi þurft að nýta þessa tryggingu og endurgreiða viðskiptavinum ferðaskrifstofa sem taka á móti ferðamönnum hingað til Íslands,“ segir Ásberg.

„Það hefur aldrei komið til þess að Ferðamálastofa hafi þurft að nýta þessa tryggingu og endurgreiða viðskiptavinum ferðaskrifstofa sem taka á móti ferðamönnum.“

Margar ferðaskrifstofur eiga ekki annarra kosta völ en að fá bankaábyrgð hjá viðskiptabanka gegn þóknun til að verða sér úti um tryggingar. Ferðaskrifstofa Harðar þarf að útvega 140 milljóna króna tryggingu yfir háannatímann en upphæðin var áður um 90 milljónir króna. Hörður og eiginkona hans hafa því, eins og margir aðrir í atvinnugreininni, þurft að grípa til þess að fá bankaábyrgð gegn því að veðsetja húsið sitt og fasteign sem er í eigu fyrirtækisins.

„Eigendur smærri ferðaskrifstofa þurfa að leggja allar persónulegar eigur undir til að geta staðið í þessum rekstri. Að því leyti snýst þetta mál líka um nýsköpun vegna þess að þeir sem vilja stofna ferðaskrifstofu en eiga ekki peninga eða fasteign til að leggja að veði gegn tryggingunni komast ekki inn á markaðinn,“ segir Hörður en ferðaskrifstofa hans flytur inn gesti frá þýskumælandi löndum. Hann nefnir að þýskur samkeppnisaðili með svipaða veltu þurfi einungis að útvega 130 þúsunda evra tryggingu, jafnvirði um 18 milljóna króna, yfir háannatímann. Þannig sé samkeppnisstaða íslenskra ferðaskrifstofa gagnvart erlendum keppinautum verulega skekkt.

Þreföldun á tryggingarkröfu

Fyrstu útfærslunni á reglugerðinni sem byggir á nýju lögunum var breytt eftir mótmæli frá ferðaskrifstofum. Atvinnuvegaráðuneytinu var sýnt að tryggingarkrafa á félag, þar sem mest allar tekjur koma inn á tveimur mánuðum, gæti verið tvöföld velta félagsins. Við þessu var brugðist með því að setja 80 prósenta þak á tryggingarfjárhæð miðað við veltu félags í samsettum ferðum.

„Ég held að ein af starfskonum okkar hafi verið í heila viku að fylla út umbeðin skjöl. Þetta eru orðin mjög íþyngjandi gagnaskil.“

Lagabreytingin hafði í för með sér breytingu á reikniformúlunni sem ákvarðar tryggingarfjárhæðina. Áður var fjárhæðin reiknuð með einföldum hættu út frá föstu hlutfalli af tekjum en nú byggir formúlan á fleiri breytum. Ein þeirra er til dæmis meðalfjöldi daga frá fullnaðargreiðslu þar til ferð hefst.

„Fyrir utan kostnaðinn við að framfylgja þessari reglugerð er flækjustigið allt of hátt. Ég held að ein af starfskonum okkar hafi verið í heila viku að fylla út umbeðin skjöl. Þetta eru orðin mjög íþyngjandi gagnaskil, sérstaklega fyrir smærri ferðaskrifstofur,“ segir Hörður.

Ásberg segir breytinguna hafa hækkað tryggingarfjárhæðina fyrir margar ferðaskrifstofur á sama tíma og rekstrarumhverfið versnaði.

Ásberg Jónsson, eigandi Nordic Visitor.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Af því sem ég heyri eru margir í vandræðum með þetta og ég held að margar ferðaskrifstofur muni hreinlega ekki getað útvegað þessa tryggingu sem þýðir að þær verða að hætta rekstri. Það má gera ráð fyrir að fram undan muni fleiri fyrirtæki fara í þrot en ekki endilega vegna þess að reksturinn sjálfur hafi verið kominn í þrot heldur þess að nú mun Ferðamálastofa taka oftar í gikkinn,“ segir Ásberg.

Hann vísar til þess að Ferðamálastofa hafi nú víðtækari heimildir til inngripa og að stofnunin hafi verið gagnrýnd fyrir að veita ferðaskrifstofunni Farvel of marga fresti til að útvega nægilega tryggingu áður en fyrirtækið varð gjaldþrota á síðasta ári.

Arnar Bjarnason, forstjóri Arcanum – Icelandic Mountain Guides, segir að tryggingarfjárhæð fyrirtækisins hafi meira en þrefaldast eftir að reikniformúlunni var breytt.

„Þetta er orðið frekar þungt og flókið. Formúlan sem slík er meingölluð gagnvart fyrirtækjum sem eru með sveiflukenndan rekstur enda byggir hún á erlendri fyrirmynd þar sem sveiflur í ferðaþjónustu eru mun minni en á Íslandi,“ segir Arnar.

Auk þess taki hún ekki tillit til áhættu í rekstri fyrirtækja. Til að mynda sé enginn greinarmunur gerður á nýstofnaðri ferðaskrifstofu annars vegar og rótgróinni ferðaskrifstofu með sterka eiginfjárstöðu hins vegar. Arnar tekur fram að í reikniformúlunni sem var notast við fyrir lagabreytinguna hafi verið tekið enn minna tillit til þessara þátta og auk þess byggt á sögulegum gögnum.

Samtökin og ríkið stofni sjóð

Þá bendir Arnar á að erlendis hafi verið stofnaðir og byggðir upp sjóðir af ferðamálasamtökum sem veita ferðaskrifstofum tryggingarvernd gegn sanngjörnu gjaldi. Á meðan þurfi íslenskar ferðaskrifstofur að leggja fram eign, bankatryggingu eða að reyna að kaupa tryggingar erlendis sem er aðeins á færi stærri fyrirtækja.

„Þetta, ásamt hækkun launa og opinberra gjalda, þrýstir enn meira á atvinnurekendur að flytja hluta af starfseminni úr landi.“

„Þetta getur hamlað vexti ferðaþjónustunnar með því að leggja þyngri byrðir á greinina en nágrannaríki gera. Þetta, ásamt hækkun launa og opinberra gjalda, þrýstir enn meira á atvinnurekendur að flytja hluta af starfseminni úr landi. Við erum ekki að spila við sömu aðstæður og erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem í dag selja og framkvæma ferðir hér á landi. Samtök ferðaþjónustunnar þurfa að vinna að því með ríkinu að búa til tryggingarsjóð fyrir ferðaskrifstofur,“ segir Arnar. Tryggingargjöldin væru þá sniðin að áhættu og skuldbindingum vegna ferða í rekstri hvers og eins fyrirtækis.

Hörður talar á svipuðum nótum og segir að undanfarin ár hafi ferðaþjónustan átt stóran þátt í að byggja undir íslenskt efnahagslíf. Því sé eðlilegt að hið opinbera taki einhvern þátt í þessum tryggingum eins og þekkist víða erlendis.

Ráðuneytið telur lögin til bóta

Fréttablaðið sendi atvinnuvegaráðuneytinu fyrirspurn um hvort það teldi nýju lögin vera til bóta.

„Lögin miða að aukinni neytendavernd og eru að mati ráðuneytisins til bóta hvað hana varðar. Þau eru innleiðing á pakkaferðatilskipun ESB sem veitir lítið svigrúm til útfærslu nema hvað varðar tryggingarhlutann. Þar er ráðuneytið með einn þátt laganna til nánari skoðunar um þessar mundir,“ segir í svari ráðuneytisins.

„Samkeppnishæfni greinarinnar er mikilvæg og ef til eru leiðir sem bæta regluverkið, án þess að ganga á neytendaverndina sem hefur verið bætt, verða þær skoðaðar sérstaklega.“