Guðni Sigurðsson, starfsmaður á samskiptasviði Icelandair, segir að umferð um vef félagsins hafi aukist verulega eftir að tíðindin af gosinu í Meradölum spurðust út í gær. Enn sé of snemmt að segja til um hvort gosið skili sér í aukningu í bókunum.

„Við sjáum þetta betur með tíð og tíma. Þetta fer dálítið eftir því hvernig umfjöllunin um gosið verður í erlendum miðlum og hvort fólk sjái þetta sem spennandi atburð að fylgjast með,“ segir Guðni.

Að sögn Birgis Olgeirssonar, sérfræðings í almannatengslum hjá flugfélaginu Play, fjölgaði bókunum hjá félaginu í gær eftir að gosið hófst.

Gengi hlutabréfa í Icelandair hækkaði um 3,21 prósent í Kauphöll Íslands eftir að fréttir bárust af eldgosinu í gær. Engar breytingar urðu hins vegar á gengi Play í Nasdaq First North Iceland kauphöllinni.