Margföld eftirspurn var í hlutafjárútboði Arnarlax, fiskeldis á Vestfjörðum. Þess vegna var ákveðið að stækka hlutafjáraukninguna úr 432 milljónum norskra króna, jafnvirði um 6,5 milljarða íslenskra króna, í um 500 milljónir norskra króna, jafnvirði um 7,6 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar í Osló.

Mikill áhugi var frá „gæða stofnanafjárfestum“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Nýta á fjármagnið til að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins.

Gildi og Stefnir hornsteinafjárfestar

Lífeyrissjóðurinn Gildi og sjóður á vegum Stefnis, sjóðastýringarfyrirtækis Arion banka, ásamt norskum fjárfesti eru hornsteinafjárfestar í hlutafjárútboðinu. Að því loknu er stefnt að skráningu félagsins á Merkur-markaðinn í kauphöllinni í Osló. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka er á meðal söluráðgjafa í útboðinu.

Fram kom í gær að Gildi muni bjóða í hlutafjárútboðinu fyrir um 216 milljónir norskra króna, jafnvirði 3,3 milljarða íslenskra króna og fái ekki minna úthlutað en 194,4 milljónum norskra króna.

Sjóður Stefnis vildi fjárfesta í útboðinu fyrir 97,2 milljónir norskra króna, jafnvirði 1,5 milljarða króna, og fái ekki minna úthlutað en 77,7 milljónir norskra króna.

Edvin Austbø vildi fjárfesta fyrir 32,4 milljónir norskra króna, jafnvirði tæplega 500 milljóna íslenskra króna og mun ekki fá minna úthlutað en 21,6 milljónir norskra króna.

Kjartan selur hluta af eign sinni

Sömuleiðis er stefnt að því að núverandi hluthafar selji fyrir um 147 milljónir noskra króna, jafnvirði 2,2 milljarða íslenskra króna. Gyða, sem er í eigu Kjartans Ólafssonar, stjórnarformanns Arnarlax, á 4,8 prósent í laxeldinu og mun selja 22 prósent af eign sinni. Pactum AS, sem á 6,8 prósenta hlut í Arnarlaxi mun selja 55 prósent af eign sinni.

Arnarlax var fyrir tæpu ári skráð á NOTC-lista kauphallarinnar í Osló fyrir minni fyrirtæki. Kjartan Ólafsson, formaður stjórnar Arnarlax, sagði við Morgunblaðið að sú skráning hafi reynst félaginu og hluthöfum þess vel. Merkur-markaðurinn geri meiri kröfur til félags­ins um upplýsingagjöf og veiti fjárfestum betri umgjörð. Hlutabréf sem þar eru skráð höfði til breiðari hóps fagfjár­festa. Stærri og þróaðri fjárfestar líti meira til þess markaðar, ekki síst í vaxtarfyrirtækjum í blágræna hagkerfinu.

Stærsti hluthafi Arnarlax fyrir hlutfjárútboðið var norski laxeldisrisinn SalMar með 59 prósenta hlut.