Íslenski hlutabréfamarkaðurinn mun eignast fulltrúa í norrænu VINX Benchmark vísitölunni þegar Marel verður tekið inn í hana frá og með 2. desember.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá vísitöludeild Nasdaq. Í VINX vísitöluna eru valin stærstu félögin á öllum norræna markaðnum og þau félög sem hafa mestan seljanleika innan sinnar atvinnugreinar. Samsetning vísitölunnar er endurskoðuð tvisvar á ári.

VINX vísitölurnar voru settar á laggirnar árið 2006 og eru fyrirtæki sem skráð eru í kauphöllum Nasdaq á Norðurlöndunum og í Osló Börs með í útreikningum. Vísitölurnar eru reiknaðar í öllum norrænum gjaldmiðlum, þar með talið íslenskum krónum.

Tilgangur þeirra er að endurspegla verðþróun hlutabréfa á Norðurlöndunum með áreiðanlegum hætti og efla sýnileika þeirra fyrirtækja sem skráð eru á mörkuðum á Norðurlöndunum.