Viðbrögð vegna COVID-19 höfðu minni áhrif á rekstur Marels á öðrum ársfjórðungi en greinendur Jakobsson Capital reiknuðu með. Afkoma fyrirtækis- ins var því betri en greinendurnir væntu á tímabilinu.

„Sveigjanleiki í rekstri og aðlögunarhæfni fyrirtækisins að breyttri heimsmynd virðist meginorsök betri afkomu en reiknað var með,“ segir í nýju verðmati sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Sala Marels á fyrri hluta ársins dróst saman um sjö prósent á milli ára, sem var í takt við væntingar Jakobsson Capital, og nam hún 607 milljónum evra. Rekstrarhagnaður og rekstrarhagnaðarhlutfall var töluvert hagstæðara en Jakobsson Capital reiknaði með. EBIT-hlutfallið var 10,7 prósent samanborið við 14,1 prósent á sama tíma fyrir ári.

Röskun á framleiðsluferlum

„Röskun er á öllum framleiðsluferlunum í ástandi líkt og nú. Öryggisráðstafanir eru dýrar en tímabundin lokun verksmiðja eða mikið skert starfsemi er enn dýrari,“ segir í verðmatinu. Allar verksmiðjur Marels hafi verið opnar á öðrum ársfjórðungi, þótt þær hafi ekki allar starfað á fullum afköstum.

„Marel hefur aukið sveigjanleika í rekstri og þótt ein verksmiðja loki er hægt að sinna framleiðslu þeirrar verksmiðju annars staðar. Öflun aðfanga og afhending vara er erfiðari og kostnaðarsamari við núverandi aðstæður,“ segir Jakobsson Capital.

Tækifæri í COVID-19

Tækifæri gætu falist í heimsfaraldrinum COVID-19 fyrir Marel, að því er fram kemur í verðmatinu, með aukinni áherslu á matvælaöryggi, þægindi og rekjanleika. Á móti vegi það að horfur séu dökkar í efnahagslífi Norður- og Suður- Ameríku.

Jakobsson verðmetur gengi Marels á 759 krónur á hlut eða um átta prósentum hærra en markaðsgengi. Verðmatið hækkaði um 2,5 prósent í evrum talið frá síðasta mati.