Marel tilkynnti í dag að skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam færi fram á öðrum ársfjórðungi 2019, háð markaðsaðstæðum. Í útboðinu verða boðnir til sölu allt að 100 milljónir nýrra hluta, sem samsvara um 15 prósentum af útgefnu hlutafé.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels að þetta sé stór dagur fyrir fyrirtækið.

„Skráningin í Euronext í Amsterdam mun styðja við markmið okkar um 12% árlegan meðalvöxt tekna á tímabilinu 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samvinnu við lykilsamstarfsaðila ásamt kaupum á fyrirtækjum,“ segir Árni Oddur.

Hlutafjárútboðið samanstendur af almennu hlutafjárútboði í Hollandi og á Íslandi og lokuðu hlutafjárútboði til ákveðinna fagfjárfesta í öðrum lögsögum, þar með talið lokað útboð í Bandaríkjunum til aðila sem eru hæfir fagfjárfestar.

Samkvæmt hluthafaskrá voru hluthafar Marel 2.464 talsins þann 17. maí 2019. Tíu stærstu hluthafarnir fara með 66,5 prósenta hlut en þar af eiga íslenskir lífeyrissjóðir 38,4 prósenta hlut í félaginu. Kjölfestuhluthafinn, Eyrir Invest hf. er eigandi 28,4 prósenta útgefinna bréfa í Marel en þar á eftir koma Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,9 prósent og Gildi með 5,7 prósent.

Á aðalfundi félagsins 2019 samþykktu hluthafar tillögu um hlutafjárhækkun að nafnvirði allt að 100 milljónir króna með útgáfu nýrra hluta. Hluthafar samþykktu á þeim sama fundi að falla frá forgangsrétti sínum til áskriftar að hinum nýjum hlutum sem boðnir verða til sölu í útboði í tengslum við tvíhliða skráningu hlutabréfa félagsins í Euronext kauphöllinni í Amsterdam