Marel, sem skráð er í kauphöll á Íslandi og Hollandi, leggur til að fjármálafyrirtæki annist skilaskyldu á arðgreiðslum skráðra fyrirtækja til ríkissjóðs í stað fyrirtækjanna sem skráð eru á markað, eins og tíðkist víða erlendis. Þetta kemur fram í umsögn fyrirtækisins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Til að hægt sé að standa skil á réttum skatti af arðgreiðslu þurfa fyrirtækin að vita skattalega stöðu hvers hluthafa. Sumir hluthafar hafa takmarkaða skattskyldu á grundvelli tvísköttunarsamninga og aðrir eru undanþegnir staðgreiðslu, til dæmis lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir.

Skortur á upplýsingum leiðir til mistaka

Í ljósi skorts á upplýsingum um skattalega stöðu hluthafa verða útreikningar fyrirtækjanna vegna arðgreiðslu gjarnan rangir. „Það veldur óþarfa vinnu við leiðréttingar og endurgreiðslur,“ segir í umsögninni.

„Af þessu skapast óhagræði sem auðveldlega mætti leysa með því að flytja skilaskyldu staðgreiðslu af arði yfir á fjármálafyrirtæki en slíkt fyrirkomulag tíðkast víða erlendis. Fjármálafyrirtæki eru í viðskiptasambandi við hluthafa og geta því aflað upplýsinga um skattalega stöðu þeirra á einfaldari hátt en útgefendur. Auk þess hafa fjármálafyrirtækin þekkingu og búa yfir kerfum til að sjá um skattgreiðsluna hratt og örugglega,“ segir í umsögn Marels.