Marel hefur skrifað undir samning um kaup á 50 prósenta hlut í Curio, sem er íslenskur framleiðandi fiskvinnsluvéla. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn síðar á árinu að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum.

Kaupin eru gerð í tveimur áföngum. 40 prósenta hlutur verður afhentur þegar skilyrði kaupsamnings hafa verið uppfyllt og 10 prósent til viðbótar þann 1. janúar 2021. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50 prósenta hlut eftir fjögur ár. Elliði Hreinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Curio, mun áfram leiða fyrirtækið. Búist er við að rekstrarhagnaður Curio hafi jákvæð áhrif á EBIT framlegð fiskiðnaðar Marel við samstæðuuppgjör eftir þann 1. janúar 2021.

„Við erum mjög spennt að taka höndum saman með Curio, framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks. Kaupin færa okkur nær markmiðum okkar að bjóða upp á heildarlausnir fyrir fiskvinnslu á heimsvísu. Síðustu ár hafa Marel og Curio unnið saman að heildarlausnum fyrir mörg af framsæknustu fiskvinnslufyrirtækjum heims með góðum árangri,“ er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels.

„Með því að bjóða upp á heildarlausnir, framleiðsluhugbúnað og áreiðanlega viðhaldsþjónustu hjálpum við viðskiptavinum okkar að sjálfvirknivæða vinnslur sínar og stuðlum að samfelldu flæði milli vinnslustiga sem tryggir verðmætari og öruggari vörur fyrir viðskiptavini á heimsvísu.“

Þá hefur Marel einnig keypt Cedar Creek Company, ástralskan framleiðanda sem sérhæfir sig í hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu. Árstekjur félagsins eru um 3 milljónir evra. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum.