Marel af­henti ný­verið Fæðingar­heimili Reykja­víkur nýjustu gerð af ung­barna­vog, en vogin er mun ná­kvæmari en inn­fluttar vogir og stuðlar þannig að auknu öryggi við brjósta­gjafa­ráð­gjöf og vissu fyrir næringar­inn­taki barna.

Vogin sem Fæðingar­heimili Reykja­víkur hefur fengið að gjöf er sú fyrsta í nýrri og endur­bættri út­gáfu, en síðasta sumar hófst vinna við að bæta hönnun vogarinnar enn frekar. Endur­bæturnar voru unnar í sam­starfi við ljós­mæður sem komu með gagn­legar á­bendingar um tæki­færi til endur­bóta en Jón­mundur Ei­ríks­son, véla­hönnuður í ný­sköpunar­teymi Marel, leiddi hönnunar­ferlið.

Marel hefur fram­leitt og gefið um 30 ung­barna­vogir frá árinu 2005 en vogirnar er fram­leiddar á Ís­landi. Hug­myndina að voginni átti þá­verandi fram­kvæmda­stjóri vöru­þróunar hjá Marel, Jón Þór Ólafs­son, en eigin­kona hans starfaði sem ljós­móðir og hjúkrunar­fræðingur.

Jón Þór sá tæki­færi til þess að nýta tækni Marel til að auka ná­kvæmni við vigtun ung­barna, en vogar­af­lestur gaf ó­ná­kvæmar upp­lýsingar vegna hreyfinga barnanna, sem er ekki ó­svipað vanda­mál og Marel hafði leyst með skipa­vogum sínum við vigtun á sjó þar sem allt er eðli máls sam­kvæmt á hreyfingu.

Aðsend mynd

Nú þegar 18 ár eru liðin frá því fyrsta ung­barna­vog Marel var gefin er ekki ó­lík­legt að á meðal starfs­fólks fyrir­tækisins séu ein­staklingar sem við fæðingu voru vegnir með Marel ung­barna­vog.

Þótt ung­barna­vogir séu ekki hluti af kjarna­starf­semi Marel, þá á fyrir­tækið sér langa sögu þegar kemur að þróun og fram­leiðslu há­tækni­voga. Upp­haf Marel, sem fagnar 40 ára af­mæli í ár, má rekja til þess þegar hópur ís­lenskra há­skóla­manna og frum­kvöðla á Raun­vísinda­stofnun Há­skóla Ís­lands lagðist á eitt við að þróa raf­einda­vog með það að mark­miði að auka verð­mæta­sköpun og nýtingu í ís­lenskum fisk­iðnaði.