Marel afhenti nýverið Fæðingarheimili Reykjavíkur nýjustu gerð af ungbarnavog, en vogin er mun nákvæmari en innfluttar vogir og stuðlar þannig að auknu öryggi við brjóstagjafaráðgjöf og vissu fyrir næringarinntaki barna.
Vogin sem Fæðingarheimili Reykjavíkur hefur fengið að gjöf er sú fyrsta í nýrri og endurbættri útgáfu, en síðasta sumar hófst vinna við að bæta hönnun vogarinnar enn frekar. Endurbæturnar voru unnar í samstarfi við ljósmæður sem komu með gagnlegar ábendingar um tækifæri til endurbóta en Jónmundur Eiríksson, vélahönnuður í nýsköpunarteymi Marel, leiddi hönnunarferlið.
Marel hefur framleitt og gefið um 30 ungbarnavogir frá árinu 2005 en vogirnar er framleiddar á Íslandi. Hugmyndina að voginni átti þáverandi framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Marel, Jón Þór Ólafsson, en eiginkona hans starfaði sem ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
Jón Þór sá tækifæri til þess að nýta tækni Marel til að auka nákvæmni við vigtun ungbarna, en vogaraflestur gaf ónákvæmar upplýsingar vegna hreyfinga barnanna, sem er ekki ósvipað vandamál og Marel hafði leyst með skipavogum sínum við vigtun á sjó þar sem allt er eðli máls samkvæmt á hreyfingu.

Nú þegar 18 ár eru liðin frá því fyrsta ungbarnavog Marel var gefin er ekki ólíklegt að á meðal starfsfólks fyrirtækisins séu einstaklingar sem við fæðingu voru vegnir með Marel ungbarnavog.
Þótt ungbarnavogir séu ekki hluti af kjarnastarfsemi Marel, þá á fyrirtækið sér langa sögu þegar kemur að þróun og framleiðslu hátæknivoga. Upphaf Marel, sem fagnar 40 ára afmæli í ár, má rekja til þess þegar hópur íslenskra háskólamanna og frumkvöðla á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands lagðist á eitt við að þróa rafeindavog með það að markmiði að auka verðmætasköpun og nýtingu í íslenskum fiskiðnaði.