Marel byrjar árið af krafti þegar litið er til pantanabókar félagsins, að mati sérfræðinga á markaði. Pantanir jukust um fimm prósent á milli ára á fyrsta fjórðungi og námu 369 milljónum evra.

Tekjur Marels á fjórðungnum voru í takt við spár greinenda eða 2,2 prósentum hærri en meðaltal útgefna spáa frá JP Morgan og IFS.

Framlegð Marels var 11,4 prósent á fjórðungnum en JP Morgan gerði ráð fyrir að hlutfallið væri 10,2 prósent og IFS spáði 13 prósentum.

Marel hagnaðist um 21,2 milljónir evra á fjórðungnum sem er 21 prósent minna en meðaltaal spáa JP Morgan og IFS.

COVID-19 jókst kostnað

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, sagði í tilkynningu með uppgjörinu sem birtist í gær að á fjórðungnum væru áskoranir tengdar vöruflutningum og ferðalögum vegna heimsfaraldurs enn meiri en áður. Það hafi aukið rekstrarkostnað. „Til þess að tryggja tímanlegar afhendingar og uppsetningar við þessar krefjandi aðstæður þurftum við að taka á okkur hærri kostnað í framleiðslu, þjónustu og flutningum, sem hafði áhrif á framlegð. Sölu- og stjórnunarkostnaður var einnig hærri en undanfarna fjórðunga. Við höfum aukið við markaðsstarf og vinnum að mikilvægum stafrænum umbótum og sjálfvirknivæðingu í framleiðsluferlum, innkaupum og þjónustu til að auka sveigjanleika og búa okkur undir væntan vöxt.“

Hefur burði til frekari vaxtar

Frjálst sjóðstreymi var 45,5 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 38,6 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Að sama skapi eru nettó vaxtaberandi skuldir 0,8 sinnum EBITDA (hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta).

Sérfræðingar á markaði benda á að sterk sjóðsstaða og lágt skuldahlutfall gefi félaginu mikið rými til vaxtar, eins og fram hafi komið í tilkynningu frá Marel, og eru forvitnir um hvort stjórnendur fyrirtækisins gefi hluthöfum betri innsýn í hver næstu skref verða.