Verð hlutabréfa Marels er komið yfir 600 krónur á hlut í fyrsta skipti í frá því að félagið var skráð á Kauphöllina. Eftir 3,6 prósenta hækkun í 660 milljóna króna viðskiptum stendur gengi bréfanna í 601 krónu.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að verðmöt erlendra banka á Marel, sem gerð voru í kjölfar skráningar fyrirtækisins í Euronext-kaup­höll­inni í Amster­dam í byrjun sumar, væru allt að 19 prósentum hærri en gengi bréfanna í dag. Hæst er verðmat Citigroup sem verðmetur bréf Marels á 715 krónur.

Í Euronext-kauphöllinni hafa bréf íslenska hátæknirisans hækkað um 4,68 prósent það sem af er degi og stendur gengið í 4,25 evrum á hlut.