Innlent

Már: Stundum betra að hækka vexti strax

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að vaxtahækkun í núinu, sem sé í samræmi við aðstæður, stuðli að lægri vöxtum en ella þegar frá líður.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Fréttablaðið/Anton Brink

Sú gagnrýni sem vaxtahækkun Seðlabankans hefur sætt bendir til þess að peningastefnunefnd bankans hafi ekki útskýrt nægilega vel að stundum er betra að hækka vexti nú til þess að komast hjá því að þurfa að hækka þá mun meira síðar. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á peningamálafundi Viðskiptaráðs Íslands sem haldinn var á Hilton Nordica-hótelinu í morgun.

„Það er kostnaðarsamt fyrir almenning ef vextir verða annað hvort of háir eða lágir,“ sagði Már og benti um leið á að húsnæðislán heimila væru að meirihluta til verðtryggð og til lengri tíma. „Með því að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið verða þessir vextir til lengdar lægri en ella jafnvel þó svo að það krefðist þess stundum að skammtímanafnvextir Seðlabanka hækki,“ nefndi seðlabankastjóri.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað sem kunnugt er að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig og verða meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, því 4,5 prósent. 

Hækkunin hefur verið harðlega gagnrýnd af aðilum vinnumarkaðarins en þannig lýsti miðstjórn Alþýðusambands Íslands því yfir að hún mundi ekki auðvelda að sátt næðist í komandi kjaraviðræðum.

„Þetta eru ískaldar kveðjur frá Seðlabankanum inn í kjaraveturinn þar sem það er alveg klár krafa hreyfingarinnar að vextir lækki og að böndum verði komið á verðtrygginguna,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Stuðlar til lengdar að lægri vöxtum

Már tók fram á fundinum í morgun að almennt væri leitast við að hafa vexti Seðlabankans á hverjum tíma eins lága og mögulegt væri en jafnframt eins háa og nauðsynlegt væri. Það réðist hins vegar af aðstæðum og væri breytilegt frá einum tíma til annars.

„Ef vextirnir eru hærri en nauðsyn krefur getur það leitt til þess að verðbólga fer undir markmið og hagvöxtur verður minni en hann gæti ella verið,“ nefndi Már og bætti við:

„Ef vextirnir eru lægri en þörf er á gæti verðbólga hins vegar farið úr böndum og efnahagslegur óstöðugleiki grafið um sig. Til að taka á því kann að þurfa að hækka vexti mun meira síðar.“

Seðlabankastjóri sagði að vaxtahækkun í núinu, sem væri í samræmi við aðstæður, stuðlaði því að lægri vöxtum en ella þegar frá liði. 

„Stundum gerist þetta mjög fljótt. Það er, skammtímanafnvextir Seðlabanka hækka og það verður til þess að lengri vextir lækka því vaxtahækkunin stuðlar strax að lægri verðbólguvæntingum. Um það eru ýmis dæmi að vaxtahækkun Seðlabanka leiði tiltölulega fljótt til lægri langtímavaxta,“ nefndi Már.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Ingi­mundur lætur af for­mennsku ISAVIA

Innlent

Sam­eining lækkaði kostnað Festar um hálfan milljarð

Innlent

Rétt­lætis­mál að af­nema banka­skattinn

Auglýsing

Nýjast

Big Short-fjár­festir veðjar gegn bönkum í Kanada

Arnar Gauti tekur við af Guð­brandi

Norwegian refsað harðar en Boeing á mörkuðum

Upp­bygging Vestur­bugtar í upp­námi

Icelandair hækkar enn í kjöl­far WOW-vand­ræða

Festi kaupir hlut í Íslenskri orkumiðlun

Auglýsing