Már Guðmundsson kynnti vaxtaákvörðun Seðlabankans í síðasta sinn í morgun en hann mun láta af störfum í sumar eftir 10 ára starf.

Á fundinum fór Már yfir þann árangur sem hefur náðst frá því að hann tók við starfinu og rifjaði upp fyrsta kynningarfundinn sem hann stýrði 24. september 2009. Þá var ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum í 12 prósentum en í dag voru þeir lækkaðir um 0,25 prósentustig niður í 3,75 prósent. Skráð atvinnuleysi var 8,5 prósent og á leiðinni upp á við en nú stendur það í 3,7 prósentum. Auk þess var verðbólguálagið þá töluvert yfir markmiðum bankans en nú er það nálægt markmiðinu.

„Ég held að það sé óhætt að segja að þrátt fyrir allt hafi náðst töluverður árangur á þessum tíma,“ sagði Már. Hann sagði að kynningarfundirnir væru mjög mikilvægur hluti af peningastefnunni.

„Við þurfum að miðla peningastefnunni til þess að hún hafi áhrif á fjármagnsmarkaði, gengi, vexti og annað slík, en einnig að miðla henni þannig að fólk skilji sem best hvað við erum að gera. Þið sem hafið mætt á þessa fundi gegnið mikilvægu hlutverki í því. Mér hafa þótt þessir fundir hafa batnað mikið með tímanum,“ sagði Már.

„Fjölmiðlar miðla því sem við erum að segja en spyrja líka erfiðara spurninga ef á þarf að halda. Greiningardeildirnar skrifa greiningar um það sem við erum að gera. Við erum ekki alltaf sammála því sem þar stendur en stundum tekst þeim betur upp en okkur að tala um þetta á mannamáli.“

Þá kvaddi Már, þakkaði fyrir sig og sagðist fullur tilhlökkunar þegar hann var spurður hvað væri efst í huga.