Nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði, sem skrifað var undir í síðasta mánuði, auðvelduðu Seðlabankanum að lækka stýrivexti sína um hálft prósentustig, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

„Þótt samningarnir feli í sér myndarlegar launahækkanir var niðurstaða þeirra í betra samræmi við verðbólgumarkmið en margir bjuggust við,“ segir Már í myndbandi sem Seðlabankinn hefur gefið út í tilefni af vaxtaákvörðun peningastefnunefndar.

Verðbólguvæntingar hafi því í framhaldinu lækkað og svigrúm til vaxtalækkunar myndast.

Már segir einnig hafa hjálpað til að gengi krónunnar hafi haldist tiltölulega stöðugt það sem af er árinu. Lækkun vaxta Seðlabankans vinni við slíkar aðstæður gegn samdrættinum og sé ekki á kostnað þess að verðbólga fari í markmið á komandi misserum.

Seðlabankastjóri bendir á að sá samdráttur sem sé hafinn þurfi hvorki að vera djúpur né langvarandi. Samkvæmt spá bankans verði ágætis hagvöxtur þegar á næsta ári.

„En það er aldrei hægt að útiloka ný áföll,“ segir Már.

„Í því sambandi skiptir miklu máli að þjóðarbúið býr nú yfir meiri viðnámsþrótti og getu til að takast á við erfiðar aðstæður en líklega nokkkru sinni í sögu okkar, meðal annars vegna söfnunar gjaldeyrisforða og lækkunar skulda heimila, fyrirtækja og hins opinbnera á undanförnum árum.

Þá höfum við búið okkur til svigrúm til að beita peningamálum og ríkisfjármálum til að milda samdrátt,“ segir Már.