„Ég bjóst síður við þessu,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á kynningarfundi í Seðlabankanum fyrr í dag þegar hann var spurður um gengisstyrkingu krónunnar í kjölfar þess að aflandskrónum var hleypt út lausum og bindiskylda á innstreymi fjármagns færð í núll prósent.

„Ég reiknaði með að lausar aflandskrónur myndu fara hraðar út og að það tæki einhvern tíma fyrir nýjar fjárfestingar að koma inn vegna þess að hin sérstaka bindiskylda hafði verið lækkuð í núll prósent,“ nefndi seðlabankastjóri. 

Gengi krónunnar hefur styrkst um fáein prósent eftir að Seðlabankinn greindi fyrst frá áformum sínum um að annars vegar heimila eigendum aflandskróna að skipta þeim yfir í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi og hins vegar að lækka um leið bindiskylduna úr tuttugu prósentum í núll prósent.

Frétt Fréttablaðsins: Óbreyttir stýrivextir

Umræddar breytingar tóku sem kunnugt er gildi fyrr í þessum mánuði.

Már sagði á fundinum að bankinn hefði verið undir allt búinn í þessum efnum. Hann hefði áður lýst því yfir að hann myndi ekki láta gengi krónunnar veikjast á þessum forsendum, það er vegna útstreymis aflandskróna úr landi, og væri reiðubúinn til þess að beita gjaldeyrisforðanum í því skyni.

„Ég held að þetta sé ánægjuleg þróun og skjóti aðeins betri stoðum undir stöðugleikann, allavega í bili,“ sagði Már um þróunina.

Aðspurður um mögulegar skýringar nefndi hann meðal annars að svo virtist sem útstreymi aflandskróna og nýfjárfestingar á skuldabréfamarkaði hefðu að einhverju leyti „jafnað hvort annað út“. Samkvæmt tölum bankans hefði staða á aflandskrónureikningum lækkað um tíu milljarða króna og ekki væri víst að allt fjármagnið hefði farið út í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Eitthvað hefði farið beint í fjárfestingar á skuldabréfamarkaði.

Seðlabankastjóri tiltók einnig fleiri þætti, til dæmis að mikið innstreymi hefði verið inn á hlutabréfamarkað og þá hefði dregið úr útstreymi af hálfu lífeyrissjóðanna sem hefði verið umtalsvert í byrjun ársins. 

„Við getum ekki verið algjörlega örugg um hvert framhaldið verður en við erum undir allt búin,“ ítrekaði Már að lokum.