Már Guð­munds­son seðla­banka­stjóri vitnaði í sjón­varps­þátta­seríuna geysi­vin­sælu Game of Thrones á fundi sínum með efna­hags- og við­skipta­nefnd Al­þingis í morgun. Um­ræðan á fundinum snerist einkum um kjara­mál og þá bar­áttu sem á sér stað hjá verka­lýðs­fé­lögum fyrir bættum kjara­samningum. Már dró upp dökka mynd af þeim að­stæðum sem skapast myndu fari svo að fallist verði á launa­kröfur á­kveðinna fé­laga í kjara­deilunni við at­vinnu­lífið. 

„Segjum sem svo að menn knýi fram hækkun upp á 15 til 20 prósent. Hvernig myndi Seðla­bankinn bregðast við?“ spurði Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, út í á­hrifin af hækkunum um­fram svig­rúm hag­kerfisins. 

Verðbólgan upp á við

Már byrjaði á því að segja að bankinn liti alltaf á heildar­myndina. Kjara­málin væru hins vegar stór hluti hennar. Fyrr á fundinum hafði hann rætt mögu­leikann á inn­spýtingu við kulnun hag­kerfisins, hvort sem um væri að ræða í peninga­stefnu­málum eða ríkis­fjár­málum. 

„En ef þetta gerist þá tekur það allt svig­rúmið í burtu. Auð­vitað rís verð­bólgan upp og verð­bólgu­væntingarnar fara upp. Svo er spurning hvað gengið gerir,“ sagði Már. „Við erum bara komin á nýjan stað og það mun taka tölu­verðan tíma að komast á þann stað sem við erum á aftur.“ 

Blóð, sviti og tár

Már sagði að barist hefði verið fyrir stöðu hag­kerfisins eins og hún er í dag frá árunum 2012 til 2016/2017. „Sögu­lega séð [...] þetta hefur oftast verið gert með blóði, svita og tárum. En þarna tókst það án þess,“ bætti hann við. Ljóst er að sama staða yrði ekki uppi á teningnum með hækkunum um­fram svig­rúm. 

Um­svif í ís­lenska hag­kerfinu yrðu minni og verð­bólgan meiri. Hag­stjórnin flóknari og at­vinnu­leysi meira. „Ég trúi því nú að það sé auð­vitað enginn sem vilji þetta. Þetta er spurning um væntinga­stjórnun í kjara­samningum,“ sagði Már og leit til Rann­veigar Sigurðar­dóttur að­stoðar­seðla­banka­stjóra, sem einnig sat fundinn, og bætti við: „Viltu bæta eitt­hvað við þessa hryggðar­mynd?“ Rann­veig spurði á gaman­sömum nótum hvort Már þyrfti á vasa­klút að halda.

Vel undir vetur búin

Því næst spurði Álf­heiður Eymars­dóttir Pírati hvort Seðla­bankinn væri með á­ætlun ef allt færi á versta veg. Már sagði að bankinn væri ekki með neina sér­staka á­ætlun sem út­listaði til­tekin at­riði. „Hins vegar höfum við ára­tuga, jafn­vel hundruð ára reynslu annarra þjóða og okkar hvernig á að vinna við svona að­stæður,“ sagði hann og í­trekaði að staðan væri sterk með til­liti til gjald­eyris­forða, af­gangs ríkis­sjóðs og lágrar skulda­stöðu. 

„Vetur mun koma,“ sagði Már síðan þegar hann vísaði í Game of Thrones en dró svo ör­lítið úr orðum sínum: „Ég er ekki að segja að veturinn muni koma en við erum vel undir hann búinn.“

Fundur nefndarinnar í heild sinni.