Hagnaður Halal sem heldur utan um rekstur sýrlenska veitingastaðarins Mandi dróst saman úr 121,6 milljónum króna árið 2019 í 25,9 milljónir króna árið 2020. Arðsemi eiginfjár var níu prósent í fyrra en eiginfjárhlutfall var 46 prósent.

Tekjurnar jukust um þrjú prósent á milli ára og námu 424 milljónum króna. Kostnaðurinn hins vegar jókst verulega eða um 31 prósent á milli ára. Mestu munar um að almennur rekstrarkostnaður jókst um 68 prósent eða 42 milljónir og launakostnaður jókst um 43 prósent eða 23 milljónir króna. Fjöldi ársverka jókst úr tíu í tólf á milli ára.

Athygli vekur hve lágt launahlutfallið er en það var var 18 prósent á árinu 2020. Samkvæmt skýrslu KPMG var hlutfall launa af tekjum meðal íslenskra veitingafyrirtækja vel yfir 40 prósent á árinu 2019. Í samanburðarlöndum var hlutfallið jafnan á milli 25 til 33 prósent.

Mandí rekur þrjá veitingastaði, einn í Veltusundi við Ingólfstorg, annan í Faxafeni og þann þriðja í Hæðasmára.

Eignir félagsins námu 643 milljónir króna við árslok og eigið fé var 297 milljónir króna.

Félagið á fasteignina Veltusund 3b og er hún metin á 277 milljónir króna og Faxafen 9 sem metin er á 40 milljónir króna en brunabótamat hennar er 67 milljónir króna.

Halal er í eigu Hlal Jarah. Hann skipar 14. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar til Alþingis í Reykjavík norður.

Hlal Jarah flutti til Íslands árið 2005 en hann kemur frá Damaskus í Sýrlandi.