Mánaðarlaun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að undanskildum árangurstengdum greiðslum, hækkuðu um tæpa eina milljón króna í fyrra. Fóru þau úr 4,03 milljónum króna árið 2017 í 4,97 milljónir króna árið 2018. Þetta má lesa út úr skýringum við ársreikning Íslandsbanka sem birtur var í gærkvöldi.

Laun Birnu námu um 59,6 milljónum króna í fyrra, sé ekki tekið tillit til árangurstengdra greiðslna sem námu samanlagt 3,9 milljónum króna, en til samanburðar voru laun bankastjórans um 48,3 milljónir króna, að undanskildum árangurstengdum greiðslum upp á samanlagt 9,7 milljónir króna, á árinu 2017.

Heildarlaun Birnu námu 63,5 milljónum króna í fyrra, að því er fram kemur í skýringum við ársreikning Íslandsbanka, en innifalið í þeim eru árangurstengdar greiðslur frá árinu 2014 sem rekja má til kaupaukakerfis sem var við lýði innan bankans þar til í lok árs 2016.

Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins um kaupaukakerfi ber að fresta greiðslu á að minnsta kosti 40 prósentum af kaupauka um að lágmarki þrjú ár. Voru heildarlaun Birnu 58,0 milljónir króna árið 2017.

Íslandsbanki greindi frá því í tilkynningu á mánudag að laun Birnu hefðu verið lækkuð að hennar frumkvæði um 14,1 prósent, niður í 4,2 milljónir króna, í nóvember síðastliðnum. Var ákvörðunin sögð tekin í ljósi „stöðunnar í íslensku atvinnulífi og kjaraviðræðna sem nú standa yfir“.

Hart hefur verið deilt á bankaráð Landsbankans eftir að Fréttablaðið greindi frá því að mánaðarlaun bankastjórans Lilju Bjarkar Einarsdóttur hefðu hækkað um 17 prósent, eða sem nemur um 550 þúsund krónum, í fyrra.