Í dag fór fram í fyrsta skipti málflutningur vegna íslensks máls í yfirdómstóli Mannréttindadómstóls Evrópu. Málið varðar tvö lögmenn, þá Gest Jónsson og Ragnar Halldór Hall, sem voru skipaðir lögmenn í Al Thani-málinu í mars árið 2012. Í apríl báðu þeir lausnar frá málinu en héraðsdómur hafnaði þeirri beiðni.

Gestur og Ragnar sögðu sig frá málinu þremur dögum áður en aðal­með­ferð átti að fara fram í málinu. Í Al Thani-málinu voru Kaup­þings­mennirnir Hreiðar Már Sigurðs­son, Sigurður Einars­son og Ólafur Ólafs­son á­kærðir fyrir um­boðs­svik, markaðs­mis­notkun og hlut­deild í um­boðs­svikum árin fyrir hrun. 

Gestur og Ragnar voru verj­endur Sigurðar og Ólafs en þeir sögðu sig frá málinu á þeim for­sendum að skjól­stæðingar þeirra hefðu ekki hlotið rétt­láta máls­með­ferð og réttur þeirra til jafn­ræðis hefði verið brotinn. Báðir höfðu beðið um lengri frest vegna málsins en dómari hafnað því. 

Héraðsdómur sakfelldi þá Ólaf og Sigurð í desember árið 2013 og sektaði þá Gest og Ragnar á sama tíma um eina milljón íslenska króna hvorn fyrir óvirðingu við dómstólinn og fyrir að valda óþörfum töfum á málflutningi málanna.

Gestur og Ragnar voru ekki kallaðir fyrir dómstólinn og ekki tilkynnt um ætlun dómstólsins að sekta þá. Hæstiréttur staðfesti réttarfarssektina í maí árið 2014. Þeir Ragnar og Gestur lögðu svo inn umsókn til dómstólsins vegna málsins í október það sama ár á grundvelli 6. og 7. greinar sáttmálans um rétt til réttlátrar málsmeðferðar og engrar refsingar án laga. Kvörtun þeirra til dómstólsins snýr að miklu leyti að því að þeir hafi verið dæmdir í fjarveru þeirra.

Þá segja þeir einnig að þeir hafi verið dæmdir sekir um brot sem hafi ekki verið hegningarlagabrot og að upphæð sektarinnar hafi ekki verið fyrirsjáanleg samkvæmt innlendum lögum eða fordæmi.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í október í fyrra að ekki hefði verið brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar eða að sektin hafi ekki verið fyrirsjáanleg. Gestur og Ragnar vísuðu málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins sem samþykkti í maí á þessu ári að taka málið fyrir.

Í tilkynningu frá dómstólnum kemur fram að dóms í málinu má vænta síðar. Ekki er nánar tiltekið hvenær. Upptaka af málflutningi verður aðgengileg á heimasíðu dómstólsins klukkan 14.30 að staðartíma, eða 12.30 að íslenskum tímahér.