Í nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir aðhaldi í rekstri borgarinnar en fullri fjármögnun í framlínuþjónustu. Þar segir að málaflokkur fatlaðs fólks ógni fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar og að málaflokkurinn verði vanfjármagnaður komi ekki aðstoð frá ríkinu. Þá er gert ráð fyrir því að ekki verði ráðið í þær stöður sem losna. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni en fjármálastefna var lögð fyrir borgarstjórn í dag ásamt fjárhagsáætlun til næstu fimm ára.

Þar kemur fram að tekjur borgarinnar voru töluvert undir áætlun árin 2020 og 2021. Vonir stóðu til þess að viðsnúningur yrði kröftugur á árinu 2022 og að hagkerfi heimsins kæmust á sama stað og fyrir faraldur en það hefur ekki gengið að fullu eftir en stríðsástand og heimsfaraldur hafa, eins og greint hefur verið frá, sett aðfangakeðjur í uppnám og skapað óvissu á fjármálamörkuðum.

Borgarstjóri segir að þrátt fyrir að gætt verði aðhalds í framlögum til málaflokkanna verði sérstaklega passað upp á fulla fjármögnun framlínuþjónustu.

„Við drögum saman í fjárfestingaráætlun þótt áfram verði passað upp á að sinna viðhaldsmálum og uppbyggingu innviða í vaxandi borg. Þannig verða áherslur Græna plansins um græna og vaxandi borg sem leggur áherslu á allt í senn; efnahagslega sjálfbærni, umhverfislega sjálfbærni og samfélagslega sjálfbærni áfram leiðarljós borgarinnar.“

Í tilkynningu borgarinnar kemur fram að afkoma á rekstri A-hluta borgarinnar fyrri hluta ársins 2022 hafi verið talsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, einkum vegna verðbólgu og vanfjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks sem hefur farið sívaxandi á umliðnum árum og segir í tilkynningu að reksturinn ógni nú sjálfbærni borgarinnar. 

Útkomuspá gerir ráð fyrir að niðurstaðan verði halli sem nemur 15,3 milljörðum króna í ár og á árinu 2023 er áfram gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði orðin jákvæð frá og með árinu 2024 til samræmis við markmið fjármálastefnu.

„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um, þá verður þessi málaflokkur vanfjármagnaður og það er ekki bara grafalvarlegt fyrir þjónustu sveitarfélaga og fjárhag heldur bitnar það helst á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og bíða frekari uppbyggingar í honum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í tilkynningunni en fjárhagsáætlun næsta árs tekur mið af þessum veruleika.

Gætt er aðhalds í framlögum til málaflokkanna og sett fram áætlun um aðgerðir með hliðsjón af markmiði fjármálastefnu um jafnvægi í rekstri og styrkingu veltufjár frá rekstri.

Ráðingabann

Þá kemur fram í tilkynningunni að ekki verði ráðið í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til. Auk þess leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum og reyni að finna aðrar leiðir en endurráðningar í laus störf.

Lesa má nánar um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 og fimm ára áætlun 2023-2027 í tilkynningu fjármála- og áhættustýringasviðs til Kauphallar Íslands hér.