Endurupptökunefnd hefur fallist á endurupptöku tveggja hæstaréttarmála er varða Sigurjón Þorvald Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans. Þá hefur einnig verið fallist á endurupptökubeiðni Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans.

Ríkisútvarpið greinir frá niðurstöðunni en þau Sigurjón og Elín voru dæmd til fangelsisvistar í hinu svokallaða Ímon-máli í október 2015. Þau voru ákærð fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik með því að hafa án heimilda veitt einkahlutafélaginu Ímon rúmlega 5 milljarða króna lán án heimilda.

Ein af þeim ástæðum sem tilteknar eru í endurupptökubeiðnum Sigurjón og Elínar er sú að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson sem dæmdu í málum þeirra, hafi átt hluti í Landsbankanum fyrir hrun og hafi því orðið fyrir verulegu tjóni við fall bankans.

Samkvæmt úrskurðinum keypti Viðar Már Matthíasson hlutabréf í Landsbankanum á tímabilinu 8. mars til 26. september 2007 og nam hluturinn, tæpum 15 milljónum króna þegar hann var keyptur. Eignarhluturinn varð hins vegar verðlaus þegar íslenska ríkið tók yfir Landsbankann.

Þá hefur Ríkisútvarpið eftir lögmanni Elínar að niðurstaða endurupptökunefndar séu mikil tíðindi.

„Það eru ákvæði í Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og þarna hefur ekki verið gætt að þeim þar sem í þessu tiltekna máli þá voru hagsmunir dómara sem dæmdu í málinu sem komu í veg fyrir að þessara réttinda væri gætt,“ segir Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður Elínar.