Félag í eigu fjárfestanna Magnúsar Ármanns og Þorsteins M. Jónssonar var stærsti einstaki kaupandinn að um 12 prósenta eignarhlut TM í fjárfestingafélaginu Stoðum, en allur hlutur tryggingafélagsins, dótturfélags Kviku banka, var seldur fyrir 4,5 milljarða króna í lok síðasta mánaðar.

Samkvæmt nýjum hluthafalista Stoða, sem Markaðurinn hefur undir höndum, keypti nýlega stofnað eignarhaldsfélag í eigu þeirra Magnúsar og Þorsteins, M&M Capital, meira en fimmtung bréfanna af TM og er í dag fjórði stærsti hluthafi Stoða með 2,79 prósenta hlut. Kaupverðið nam um einum milljarði króna.

Á meðal annarra félaga sem hafa bæst við hluthafahóp Stoða, sem er eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins og á meðal stærstu hluthafa í Arion, Kviku, Símanum og Play, er Arcus Invest en það er í eigu Þorvaldar H. Gissurarsonar, forstjóra og eigenda ÞG Verks. Keypti Arcus Invest fyrir rúmlega 600 milljónir króna í Stoðum og fer í dag með 1,77 prósenta hlut sem gerir félagið að áttunda stærsta hluthafanum.

Þá jók félagið Mótás, sem er í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, verulega við eignarhlut sinn í Stoðum þegar TM seldi allan hlut sinn og keypti fyrir jafnvirði tæplega 700 milljónir króna. Mótás, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Stoða í árslok 2020 þegar Landsbankinn seldi allan tólf prósenta hlut sinn í fjárfestingafélaginu, er nú þriðji stærsti hluthafinn með um 5,9 prósenta hlut.

Félög í eigu þeirra Magnúsar og Þorsteins eru fyrir á meðal hóps fjárfesta sem standa að baki eignarhaldsfélaginu S121, stærsta einstaka eigenda Stoða með 56 prósenta hlut, en aðrir eigendur þess eru meðal annars Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play, og Örvar Kjærnested, fyrrverandi stjórnarmaður í TM. Þá fer Magnús, sem var á sínum tíma hluthafi og stjórnarmaður í FL Group, einnig með rúmlega eins prósenta hlut í Stoðum í gegnum félagið GGH. Þorsteinn var á árum áður aðaleigandi Vífilfells á Íslandi auk þess sem hann hefur setið í stjórnum Glitnis, FL Group og Refresco.

Auk félaganna M&M Capital, Arcus Invest og Mótáss, sem keyptu samanlagt meira en helming þeirra bréfa sem TM seldi fyrir þremur vikum síðan, þá keyptu Stoðir samtímis einnig nokkuð af sínum eigin bréfum. Eignarhlutur Stoða í sjálfum sér nemur nú um 9,7 prósentum en í ársbyrjun nam hann um 6,1 prósenti. Sú aukning sem hefur orðið síðan þá kemur hins vegar ekki aðeins til vegna bréfa sem fjárfestingafélagið keypti af TM, samkvæmt heimildum Markaðarins, heldur einnig af öðrum – og minni hluthöfum – það sem af er ári, meðal annars Lífeyrissjóði Vestmannaeyja sem hefur selt megnið af sínum bréfum en sjóðurinn átti 1 prósents hlut í árslok 2020.

Á meðal sumra af eldri hluthöfum Stoða sem komu að kaupum á hlut TM með því að auka lítillega við hlut sinn má nefna félagið Vindhamar, sem er í eigu Kára Þórs Hallgrímssonar, stjórnanda á skuldabréfasviði fjárfestingabankans JP Morgan í London, en það fer nú með tæplega 2,6 prósenta hlut. Þá bættu félögin Dexter Fjárfestingar og Fari, sem eru í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasonar, jafnan kenndir við IKEA, við hlut sinn og auk þess eignarhaldsfélagið Helgafell, sem er í jafnri eigu Ara Fenger, Bjargar Fenger og Kristínar Vermundsdóttur. Sá sem stýrir fjárfestingum Helgafells er Jón Sigurðsson, forstjóri og stjórnarmaður Stoða, en hann er eiginmaður Bjargar.

Næst stærsti hluthafi Stoða, á eftir S121, er sjóðastýringarfélagið Stefnir með um 11 prósenta hlut. Aðrir helstu eigendur Stoða eru meðal annars Íslandsbanki, Strahan III Limited, sem er í eigu breska fjárfestisins Malcolms Walker og var í hópi þeirra sem komu að kaupum á hlut Landsbankans í Stoðum í árslok 2020, og félagið Nataaqnaq Fisheries.

Hagnaður Stoða í fyrra næstum tvöfaldaðist á milli ára og var um 7,56 milljarðar. Í lok fyrsta ársfjórðungs námu eignir félagsins, sem er skuldlaust, um 39 milljörðum króna. Eignarhlutir Stoða í skráðum félögum – Kviku, Arion og Símanum – eru í dag metnar á um 35 milljarða króna en hlutabréfaverð þessara félaga hefur hækkað á bilinu 31 til 56 prósent frá áramótum.