Sprenging hefur orðið í pakkasendingum en samdráttur í bréfasendingum undanfarinn áratug. Fjórða iðnbyltingin með allri sinni netverslun hefur gjörbreytt póstþjónustu um allan heim og segir forstjóri Íslandspósts að hér á landi sé áskorunum tekið fagnandi og með nýjungum. Ný flokkunarvél, Magni, hefur verið ræst í póstmiðstöð Póstsins sem mun hjálpa starfsfólki Póstsins að uppfylla væntingar viðskiptavina um hraða og örugga þjónustu. Nýja pakkaflokkunarvélin Magni allt að fimmfaldar afköst forverans Trausta.

,,Miklar umbreytingar hafa verið hjá Póstinum undanfarin misseri. Bréfasendingar innanlands eru aðeins um 25 prósent af því sem var árið 2010 en segja má að sprenging hafi orðið í pakkasendingum. Frá árinu 2010 hafa innlendar pakkasendingar rúmlega tvöfaldast og sendingar frá útlöndum rúmlega þrefaldast samhliða breyttri kauphegðun Íslendinga þar sem verslun fer að enn stærri hluta en áður fram á netinu og innlend netverslun í miklum vexti," segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts.

Þórhildur segir nauðsynlegt að bregðast við þessu breytingum sem segja megi að fjórða iðnbyltingin hafi skapað í póstþjónustu. ,,Nú eru stórir dagar framundan hjá Póstinum, með stórum netverslunardögum og jólum; áætlanir gera ráð fyrir um 50 prósent fjölgun á innlendum og erlendum vörusendingum síðustu tvo mánuði ársins miðað við aðra mánuði ársins. Auk jólavertíðarinnar, sem kallar óhjákvæmilega á mikinn fjölda sendinga, hefur alþjóðleg netverslun bætt við nýjum „hátíðisdögum“ í líf neytenda og netverslana en þrjá stórútsöludaga ber nú upp í nóvember; Singles' Day, Black Friday og Cyber Monday."

Magni allt að fimmfaldar afköst Trausta

Til að bregðast við þessari aukningu hefur Íslandspóstur fjárfest í nýrri pakkaflokkunarvél sem markar tímamót í sögu póstþjónustu hér á landi þegar kemur að afköstum og verklagi sem skilar sér í betri þjónustu til viðskiptavina. Þegar kom að velja nafn á tækið, valdi starfsfólk Póstsins nafnið Magni en áður hafði vélin Trausti séð um flokkun.

,,Trausti hafði staðið vel undir nafni og gat flokkað allt að 800 sendingar á klukkutíma en þess má geta að bréfaflokkunarvélin Vanda er enn að störfum hjá Póstinum og flokkar bréfin og jólakortin eins og ekkert sé. Magni hefur hins vegar allt að fimmfalda afkastagetu á við Trausta og með honum verður öll flokkun víðtækari og snarpari og sendingar munu skila sér hraðar í hinar fjölmörgu afhendingarleiðir Póstsins um allt land, allt eftir þörfum hvers og eins. Tiltölulega einfalt er að bæta við kerfið og getur Pósturinn þannig enn betur aðlagast breyttum raunveruleika í pakkasendingum eftir því sem fram líða stundir," segir Þóhildur.

Hún segir að Póstboxum hafi verið fjölgað um allt land en þau eru sjálfsafgreiðslustöðvar sem viðskiptavinir geta sótt sendingar í allan sólarhringinn. ,,Einnig geta þeir sem vilja senda eða eiga von á sendingum notað nýtt Póst-app og skráð sig í sjálfvirkar skuldfærslur sem hraðar allri afgreiðslu og eftir aðstæðum nýtt sér hvort heldur sem er Póstbox, Pakkaport eða Pósthús til að senda eða sækja sendingar. Allt þetta ásamt 700 rauðklæddum og þjónustulunduðum starfsmönnum Póstsins sem standa vaktina hringinn í kring um landið skilar sér í traustri þjónustu við viðskiptavini og sér til þess að sendingar komast hratt og örugglega á leiðarenda."