Það er nóg að gera hjá Póstinum þessa dagana og greinilegt að landsmenn eru farnir að nýta sér netverslanir í meiri mæli.

„Það er mun meira álag en hefur verið undanfarin ár. Í nóvember var 120% aukning á milli ára á innlendum sendingum og það sem af er desember er aukningin 100%," segir Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðs-og söluvið hjá Póstinum í samtali við Fréttablaðið.

Brynjar segir að sendingarnar séu að mestu tengdar innlendri netverslun. Eins sé mikið af einstaklingum að póstleggja sendingar til útlanda.

„Innanlandssendingar fyrir jólin fara líklegast að detta inn núna á fullu en síðasti skiladagur til að ná fyrir aðfangadag er 18. desember. Ég geri ráð fyrir að það verði brjálað að gera fyrir þann tíma."

Aukið álag kallar á fleiri starfsmenn

Vegna mikilla anna hefur Pósturinn bætt við starfsfólki.

„Við erum búin að ráða fólk á ölum vígstöðvum til að koma til móts við þessi auknu umsvif. Við þurfum auðvitað að virða fjöldatakmarkanir eins og aðrir þannig við getum ekki bætt endalaust við. Það útskýrir líka hvers vegna mikil bið er þessa dagana."

Álagið er ekki aðeins á Pósthúsunum sjálfum og hjá dreifingunni en sem dæmi voru 80 manns í bið hjá símaþjónustuveri Póstsins í dag.

„Okkur þykir virkilega leitt að láta fólk bíða eftir sendingunum sínum, en álagið hefur aldrei verið eins mikið og nú. Allt okkar fólk er að gera sitt allra besta og það er unnið í öllum sóttvarnarhólfum, eins margir og leyfilegt er, alla daga og allan sólarhringinn. Við vonumst til að þetta verði komið í betra stand um helgina," segir Brynjar að lokum.