Tilnefningarnefnd Sjóvár bárust alls fjórtán framboð til setu í aðalstjórn tryggingafélagsins og þar af frá fjórum núverandi stjórnarmönnum. Fimm frambjóðendur drógu hins vegar framboð sitt til baka eftir að hafa fengið vitneskju um að þeir væru ekki á meðal þeirra sem nefndin leggur til að verði kjörnir í stjórnina.

Tilnefningarnefndin, sem birti skýrslu sína í gærkvöldi, leggur til að þrír núverandi stjórnarmenn í Sjóvá, Björgólfur Jóhannsson, Hildur Árnadóttir og Ingi Jóhann Guðmundsson, verði endurkjörin í stjórn tryggingafélagsins.

Heimir V. Haraldsson, sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 2009 og býður sig fram til endurkjörs, er hins vegar ekki á lista nefndarinnar. Þá gefur stjórnarmaðurinn Hjördís E. Harðardóttir hæstaréttarlögmaður ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa.

Aðrir á lista tilnefningarnefndar eru þau Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri TRU Flight Training Iceland sem kom á fót rekstri flughermis í þjálfunarsetri Icelandair, og Ingunn Agnes Kro, stjórnarmaður í HS Orku og fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs. Þess má geta að fyrrnefndur Guðmundur Örn starfaði í 23 ár hjá Tryggingamiðstöðinni, þar á meðal sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og viðskiptaþróunar, og þá var hann forstjóri VÍS á árunum 2008 til 2011.

Aðrir sem bjóða sig fram í stjórn Sjóvár en komast ekki á lista tilnefningarnefndar eru, auk Heimis, Jón Gunnar Borgþórsson, Már Wolfgang Mixa og Ragnar Karl Gústafsson.

Erna Gísladóttir, forstjóri BL, og Garðar Gíslason lögmaður gefa kost á sér til áframhaldandi setu í varastjórn Sjóvár.

Kosið verður í stjórn tryggingafélagsins á aðalfundi þann 12. mars.