Í viðtali við erlent fagtímarit í lyfjageiranum 2002 var Róbert Wessman spurður að því hvort hann ætlaði ekki að láta til sín taka á líftæknilyfjamarkaðnum. Hann svaraði því til að hann teldi það ótímabært og myndi bíða í tíu ár. Svo myndi hann gera þetta á Íslandi.

Samheitalíftæknilyfjafyrirtækið Alvotech var skráð á Nasdaq í New York fimmtudaginn 16. júní. Viku síðar hófust viðskipti með hlutabréf félagsins í íslensku kauphöllinni. Varð þá að veruleika áfangi sem gríðarleg fjárfesting og þrotlaus vinna í heilan áratug liggja að baki.

Róbert stóð við stóru orðin og árið 2012, tíu árum eftir fyrrnefnt viðtal, kom hann á fót Alvotech. Það ár greindi Róbert stjórn Alvogens, fyrirtækisins sem hann er stór hluthafi í og stýrir, frá því að hann teldi að 2020 yrðu öll stærstu lyfin í heiminum byggð á líftækni og mikilvægt væri fyrir Alvogen að taka sér stöðu á þeim markaði.

Róbert, Ksenia og Ace á fleygiferð í sumarfríi.

Eitt stærsta líftæknilyf í heimi

Í framhaldinu voru gerðir samningar við Hospira, sem var hluti Pfizer lyfjarisans, upp á 270 milljónir Bandaríkjadala um þróun hliðstæðulyfs við Humira, sem er eitt stærsta líftæknilyf í heimi sem selst fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala á ári hverju.

Nú er Alvotech komið með leyfi til markaðssetningar og sölu fyrir hliðstæðulyf við Humira í Evrópu og tvö önnur lyf. Leyfi fyrir Bandaríkjamarkað tekur gildi á næsta ári.

Róbert segir sögu þess að Alvotech er komið á þann stað sem það er í dag vera nánast eins og lygasögu. Pfizer borgaði Alvotech fyrir þróun á Humira hliðstæðulyfi en var jafnframt að þróa sitt eigið hliðstæðulyf.Reglur í Bandaríkjunum kveða hins vegar á um að hvert fyrirtæki má einungis vera með eitt lyf í hverjum flokki. Séu fleiri en eitt lyf í þróun ber fyrirtækjum skylda til að selja frá sér öll nema eitt. Ekki má bara hætta þróun þeirra heldur verður að selja.

Þannig má segja að Pfizer hafi borgað okkur fyrir að þróa lyfið

„Pfizer taldi sína útgáfu vera lengra komna en þá sem við vorum að þróa og niðurstaðan varð sú að Pfizer borgaði Alvotech fyrir að taka yfir þróun og ábyrgð á lyfinu sem Hospira hafði upphaflega samið um við fyrirtækið. Þannig má segja að Pfizer hafi borgað okkur fyrir að þróa lyfið og svo aftur fyrir að taka það af sínum höndum,“ segir Róbert.

Nú er Alvotech komið með sitt Humira hliðstæðulyf á markað en ekkert bólar á lyfinu sem Pfizer taldi lengra komið á sínum tíma og veðjaði á.

Róbert og Ksenia ásamt eldri börnunum sínum í brúðkaupinu í Frakklandi í fyrra.

Gengu í hjónaband í fyrra

Margt hefur verið ritað og skrafað um Róbert Wessman undanfarin misseri og ár. Flest hefur það verið um afrek hans á viðskiptasviðinu, sem vissulega eru mikil, og einhverjir hafa verið með hnútukast í hann, eins og oft gerist með áberandi fólk sem skarar fram úr.

Minna hefur verið fjallað um manninn Róbert Wessman. Hver er maðurinn að baki Alvogen og Alvotech, maðurinn sem nú stýrir eina íslenska fyrirtækinu sem skráð er á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum?

„Ja, ég er í grunninn eiginmaður og faðir. Við hjónin áttum tvö börn fyrir hvort og eignuðumst síðan son okkar fyrir þremur árum.“

Ríkidæmið er metið í að eiga frábæra krakka og þegar stundir gefast að verja tíma með þeim

Eiginkona Róberts er Ksenia Shakmanova en þau gengu í hjónaband í ágúst í fyrra. Brúðkaupið fór fram í Frakklandi að viðstöddum fjölskyldu og vinum. Börn Róberts úr fyrra hjónabandi heita Helena, 23 ára og Jens, 20 ára. Börn Kseniu eru Alex, 13 ára og Vika 12 ára. Saman eiga þau soninn Ace sem er þriggja ára. Fjölskyldan er því stór og mikið líf á heimilinu. Þau búa öll í Holland Park í London þar sem börnin ganga í skóla.

„Það var ástæðan fyrir því að við hreiðruðum um okkur í London 2019. Ríkidæmið er metið í að eiga frábæra krakka og þegar stundir gefast að verja tíma með þeim. Ace er mikill gleðigjafi fyrir okkur öll og ekki síst fyrir hina krakkana. London er náttúrlega frábær borg sem býður upp á allt það besta sem hægt er að njóta. Svo er það nú þannig að eldri börnin okkar eru í háskólanámi í London þannig að þetta er tilvalið fyrir fjölskylduna.“

Róbert og Ksenia með Ace á milli sín.
Slakað á með Kseniu og Ace í dýragarðinum.

Skrifstofan í göngufjarlægð

Róbert segir London líka vera miðsvæðis og mjög heppilega miðstöð fyrir starfsemi þeirra fyrirtækja sem hann kemur að. Skrifstofan er í göngufjarlægð frá heimilinu. Venjulega eru þar 6-7 starfsmenn frá Alvotech, Alvogen og Lotus.„Alvogen er eingöngu á Bandaríkjamarkaði og svo starfrækjum við Lotus í Asíu. Starfsemi Alvotech er síðan á Íslandi. En við erum um víða veröld og ég þarf að vera dálítið á faraldsfæti. London hentar frábærlega fyrir það vegna þess að þaðan er hægt að fljúga beint til allra staða sem við erum með starfsemi á og það skiptir máli,“ segir Róbert. „En hér í Holland Park er skrifstofan alltaf full vegna þess að stjórnendur víða að sækja í að koma hingað og vinna.“

Sjálfur segist Róbert vera á ferðinni um heiminn um tíu daga í hverjum mánuði að jafnaði. „Þetta hefur þó lagast heilmikið eftir Covid, Við fluttum til London 2019 og korteri seinna var kominn heimsfaraldur og allir fundir meira og minna komnir á Teams í gegnum tölvu.“

Róbert segist telja að heimurinn hafi breyst varanlega vegna Covid. „Við förum ekki aftur í þessi gegndarlausu ferðalög sem tíðkuðust áður. Núna afgreiðum við miklu frekar fundi í gegnum Teams en að taka heilan dag, eða jafnvel tvo, í að ferðast vegna klukkutíma fundar. Ég er í sambandi við alla mína stjórnendur reglulega í gegnum fjarfundi.“

Róbert og Ksenia á góðri stund.

Skipuleggur sig tvær vikur fram í tímann

Róbert segir fjarfundina hins vegar ekki breyta því að stjórnendur verði að mæta á staðinn og hafa puttann á púlsinum. Til Íslands kemur hann þrisvar til fjórum sinnum á ári að jafnaði en undanfarin ár hefur hann búið erlendis, fyrst í New York og frá 2019 í London.

En hvernig er dagurinn hjá önnum köfnum forstjóra alþjóðlegs stórfyrirtækis og stjórnarformanni félags sem skráð er á Nasdaq?

„Ég reyni að hafa þetta í nokkuð föstum skorðum. Til að byrja með má nefna það að ég reyni að skipuleggja svona tvær vikur fram í tímann – ákveða hverju ég ætla að koma í verk. Annars er hætt við því að síminn og tölvupósturinn taki völdin og lítið verði úr því sem maður ætlar að gera.

Ég vakna svona sjö til hálf átta á morgnana. Það þarf að koma börnum í skólann. Við hjónin förum svo gjarnan saman í ræktina þegar færi gefst. Ég hef alltaf reynt að stunda líkamsrækt reglulega. Svo er þægilegt að geta gengið í vinnuna. Þangað er ég venjulega kominn svona um hálf níu.“

Róbert hefur gaman af margs konar íþróttum. Hann hefur stundað hjólreiðar og keppt í þeim. „Nú er reyndar búið að taka af mér keppnisleyfið í hjólreiðum. Ég lenti í slysi fyrir nokkrum árum og braut tvo hryggjarliði. Ég hef að mestu jafnað mig alveg en það skröltir samt eitthvað þó að það hái mér ekki. Ég reyni að stunda hlaup og hef gaman af því.“

Róbert stundar einnig hjólreiðar.

Alæta á íþróttir og tónlist

Á veturna stundar Róbert skíði og þegar hann er í húsi fjölskyldunnar í Frakklandi er gjarnan gripið í körfubolta. „Svo hef ég óskaplega gaman af því að fara með son minn, þriggja ára, á fótboltaæfingar í Holland Park um helgar. Við reynum líka að fara mikið í sund og hann er orðinn syndur, sá stutti.“

Róbert segist vera alæta á íþróttir og tónlist.

„Ég hlusta samt ekki mikið á klassík þegar ég er að vinna en hef gaman af til dæmis Kaleo og Dire Straits.“

En hvað með framtíðina?

„Ég er 53 ára og búinn að vera forstjóri alþjóðlegra fyrirtækja í 23 ár. Verkinu er hvergi nærri lokið og ég ætla að fylgja því eftir.“

Er ekkert freistandi að taka því rólega og fara bara að spila golf?

„Ja, ég tók nú aðeins í golfkylfur í gamla daga, þannig að ég á alveg sveifluna inni ef ég verð gamall, en núna hef ég bara engan tíma til að spila golf. Ég vil taka snarpar æfingar og hafa tíma fyrir það sem skiptir máli, fjölskylduna og þau verkefni sem ég er að vinna að,“ segir Róbert Wessman, sem dvelur ekki í fortíðinni heldur horfir björtum augum til framtíðar.