Lilja Kjalarsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri SagaNatura í febrúar en hún hafði áður gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra frá því í byrjun árs 2018.

Hvernig finnst þér best að verja frístundum þínum?

Ég spila fótbolta tvisvar í viku en í fullkomnum heimi næði ég líka tveim Bootcamp- eða lyftinga­æfingum inn. Annars finnst mér fátt skemmtilegra en að hvetja strákana mína áfram á fótbolta- eða körfuboltamótum. Á veturna reynum við að vera dugleg að fara á snjóbretti í Bláfjöllum og í útilegur á sumrin. Þetta skolast samt stundum til þegar það eru vinnutarnir.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Nei, því miður, því ég tek nánast alltaf vinnuna með heim. Sem betur fer er ég mjög vel gift og Svavar bakkar mig upp þegar mikið er í gangi, sem er reyndar mjög oft.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég elska að kúra á morgnana. Ég stilli klukkuna það snemma að ég get slökkt á henni allavega tvisvar áður en að ég æði á fætur til að koma strákunum í skólann og sjálfri mér í vinnuna. Síðan nýti ég yfirleitt bílferðina í vinnuna fyrir símafundi.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Verð að velja þrjár. The Cell, sem er biblía frumu- og sameindalíffræðinnar. Grunnþekkingu úr þessari bók er ég enn að nota í dag, sérstaklega í vöruþróun. Síðan er það Good to Great eftir Jim Collin og Culture Code eftir Daniel Coyle. Þessar eru í uppáhaldi úr flokki stjórnendabóka. Annars er ég alæta á bækur og ég elska að læra nýja hluti.

„Ég hef líka fengið minn skerf af erfiðri lífsreynslu, sem tekur þátt í að móta mann og kenna manni á sjálfan sig.“

Hvers konar stjórnunarstíl hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?

Ætli ég myndi ekki segja hvetjandi leiðtogi. Það er allavega sá stíll sem kemur náttúrulega hjá mér en ég er stöðugt að móta stjórnunarhæfileikana. Ég er yfirleitt brosandi og jákvæð en ég er samt ekki hrædd við að taka erfiðar ákvarðanir eða taka erfiðar samræður. Það að geta tekið erfiðar samræður er sérstaklega mikilvægt í þeirri vinnu að móta teymi. Ég var ung fyrirliði Stjörnunnar í fótbolta og síðan var ég líka aðalþjálfari í yngri flokkum Stjörnunnar.

Ég hef líka fengið minn skerf af erfiðri lífsreynslu, sem tekur þátt í að móta mann og kenna manni á sjálfan sig. Annars horfi ég á mitt hlutverk eins og hjá fótboltastjóra. Það er í mínum verkahring að setja stefnuna, velja besta fólkið í allar stöðurnar og passa að allir vinni sem ein heild. Ég vil að það sé eftirsóknarvert fyrir metnaðarfullt fólk að vinna hjá Saga­Natura. Maður fer nefnilega ekki langt án rétta fólksins.

Hver eru sóknarfærin í rekstri SagaNatura?

Þau eru ótalmörg, það mörg að við Sjöfn Sigurgísladóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri og núverandi stjórnarmaður, höfum skipt liði til að missa enga bolta. Hún einbeitir sér að spin-off tækifærum og ég mun einbeita mér að því að stýra uppbyggingu á smáþörungaræktuninni okkar og vöruúrvali sem hentar vel til útflutnings, þá er helst að nefna vinnu við vöruþróun og rannsóknir sem styðja við vörurnar. Okkar stefna er að vera fremst í fæðubótarefnum úr smáþörungum og íslenskum plöntum sem hafa lyfjafræðilega virkni, eða svokölluð nutraceuticals. Við viljum að fólk kaupi vöruna aftur af því að það fann virkilegan mun á sér við að taka þær.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum og hvaða áskoranir eru fram undan?

Það er flest allt krefjandi hjá okkur enda erum við metnaðarfull og ráðumst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Við erum stöðugt að ögra núverandi stöðu og þess vegna komumst við svona hratt áfram. Annars eru helsu krefjandi viðfangsefnin stækkun á framleiðslu frá hráefnum til lokavara, klára stærri og stærri samninga til að tryggja útflutning á vörunum okkar og tryggja fjármagn í formi styrkja til að keyra áfram rannsóknir á vörunum okkar. Helstu áskoranir okkar svo í framhaldinu eru að tryggja áframhaldandi vöxt félagsins á heimsvísu.