Macland er orðið að viðurkenndum þjónustuaðila Apple á Íslandi. Nú getur fyrirtækið veitt alhliða þjónustu á vörum frá Apple.

„Vottunin breyttir öllu um hve vel við getum þjónustað einstaklinga og fyrirtæki,“ segir Hörður Ágústsson, framkvæmdastjóri Mac­land. Auk þess muni hagur neytenda vænkast því fram að þessu hafi einungis eitt fyrirtæki verið viðurkenndur þjónustu- og söluaðili Apple.

Hann segir að Macland horfi til þess að sækja fram bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði, enda muni fyrirtækið geta boðið mun betri þjónustu en áður, eins og til dæmis flýtiþjónustu eftir að samningar náðust við Apple. Mac­land þurfti því áður að treysta meðal annars keppinautum til að þjónusta Apple-vörur í ábyrgð sem keyptar voru hjá fyrirtækinu. Hörður segir að Macland hafi verið stofnað árið 2009 í eldhúsinu heima hjá honum, í tengslum við tölvuviðgerðir. Grunnurinn að rekstrinum hafi því ávallt verið þjónusta við viðskiptavini. „Nú getum við keppt á jafnræðisgrunni en fram að þessu var leikurinn ójafn,“ segir hann.

Annað dæmi um ábatann af samningnum við Apple, segir Hörður, sé að nú geti Macland veitt öllum Apple-notendum þjónustu, sama hvaðan þeir koma, til dæmis geti nú erlendir ferðamenn komið með Apple-tæki í viðgerð í Mac­land.

Í sumar keypti Macland verkstæðishluta símatryggingafélagsins Viss og í tengslum við kaupin gengu hluthafar Viss í eigendahóp Maclands.

Macland hefur vaxið hatt á einu ári. Starfsmannafjöldinn óx úr átta í 22. Það má meðal annars rekja til þess að þriðja verslunin var opnuð í Ármúla, þar sem verkstæðið er til húsa, en fyrir rak fyrirtækið verslanir á Laugavegi og Kringlunni. Auk þess fjölgaði starfsmönnum eftir kaupin á verkstæði Viss og starfsmönnum á skrifstofu var fjölgað meðal annars í því skyni að sinna aukinni sókn á fyrirtækjamarkað. „Þetta er orðið annað fyrirtæki,“ segir Hörður.