Stórfyrirtæki í lyfjaiðnaðinum hafa að fyrra bragði haft samband við Controlant á síðustu vikum til að óska eftir vöktunarlausnum íslenska fyrirtækisins. Kórónafaraldurinn hefur aukið vitund um mikilvægi þess að hafa góða sýn yfir virðiskeðjuna. Þetta segir Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, í samtali við Markaðinn.

„Við höfum fundið fyrir auknum áhuga á lausnum okkar í lyfjaiðnaðinum í tengslum við kórónaveiruna. Það má segja að þessi veira sé að setja alls konar flutninga í uppnám og þá verður rauntímavöktun enn meira aðkallandi. Á síðustu vikum hafa stór fyrirtæki í lyfjaiðnaðinum haft samband við okkur að fyrra bragði,“ segir Guðmundur.

Controlant hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu. Lausnir félagsins gera viðskiptavinum kleift að minnka sóun í virðiskeðjunni, auka öryggi og tryggja gæði, sem skilar sér í verulegum ávinningi. Tækni Controlant bjargaði lyfjum að verðmæti 50 milljónir dollara, jafnvirði um sex milljarða króna, á fyrstu þremur mánuðunum eftir að lyfjaframleiðandinn Allergan hóf að prófa þjónustuna.

Controlant lauk í fyrradag lokuðu útboði á breytanlegum skuldabréfum að fjárhæð 1.250 milljónir króna. Núverandi hluthafar skráðu sig fyrir um það bil 40 prósentum af útboðinu en alls voru þátttakendur á fjórða tug. Guðmundur segir að nýju fjárfestarnir hafi fyrst og fremst verið fjársterkir einkafjárfestar en einnig hafi einstaka stofnanafjárfestar tekið þátt.

„Þetta fjármagn er hugsað til að standa undir áframhaldandi vexti félagsins. Við höfum verið að stækka verulega undanfarnar vikur og fjölga fólki til að takast á við þau verkefni sem eru fram undan með þeim stóru fyrirtækjum sem við erum búin að fá í viðskipti,“ segir Guðmundur. Félagið bindur vonir við að fyrir lok árs verði sex til átta af stærstu lyfjafyrirtækjum heims á meðal viðskiptavina félagsins.

Straumhvörf vegna svínaflensunnar

Guðmundur og Gísli Herjólfsson framkvæmdastjóri sögðu í nýlegu viðtali við Markaðinn að upphaflega hefði áhersla fyrirtækisins verið á matvælageirann. Það urðu hins vegar straumhvörf í því hvert fyrirtækið stefndi í kjölfar svínaflensufaraldursins árið 2009. Landlæknisembættið brá á það ráð að kaupa bóluefni fyrir alla landsmenn og auknu fé var varið í að vakta með hvaða hætti bóluefni voru geymd. Ef bóluefni eru ekki geymd við rétt hitastig missa þau virkni sína.

„Þetta verkefni opnaði augu okkar fyrir því hvað geymsla á lyfjum er viðkvæm. Flest bóluefni verða til dæmis að vera geymd við tvær til átta gráður. Annars skemmast þau flest. Að hafa aðgengi að réttum gögnum á réttum tíma getur því skipt sköpum,“ sagði Gísli en áætluð sóun vegna hitastigsfrávika á lyfjum nemur um 35 milljörðum dollara á heimsvísu á ári, eða tæplega 4.500 milljörðum króna.

„Frá þeim tíma horfðum við til þess að víkka vöruframboðið og vakta líka lyf í flutningi. Það bera ólíkir aðilar ábyrgð á lyfjum á hverjum tíma. Það getur verið framleiðandi, flutningsaðili, heildsali eða smásali. Með okkar lausn eru allir í keðjunni meðvitaðir um hvar eitthvað fór úrskeiðis og fara ekki að þrátta um hver beri ábyrgðina og í flestum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir að tjón verði.“