Lyfja segist munu stór­lækka verð á and­lits­grímum í sinni sölu með samningum við BYD Care, einn stærsta grímu­fram­leiðanda í heimi. Vörurnar verða í boði í apótekum Lyfju eftir helgi. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fyrir­tækinu.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í dag gerði ASÍ verð­könnun á slíkum and­lits­grímum. Í ljós kom að mikill verð­munur er á and­lits­grímum hér á landi. Lægsta verðið á grímum voru í stykkja­tali í Kram­búðinni, 49 krónur stykkið en það hæsta í Lyfju, 209 krónur. Ljóst er að þar er nú breyting á.

Í til­kynningu Lyfju segir að þökk sé samningum við fram­leiðandann geti fyrir­tækið nú boðið tíu grímur í pakka á 550 krónur, eða 55 krónur stykkið. „En til saman­burðar var einingar­verðið 56 kr. hjá Costco í vikunni. Vakin er at­hygli á því að við­skipta­vinir geta keypt and­lits­grímur í 10 stykkja pakka og þurfa því ekki að kaupa mikið magn til þess að tryggja sér lágt verð,“ segir orð­rétt í til­kynningunni.

Tekið er fram að hægt verði að fá and­lits­grímur á þessu verði í öllum 46 apó­tekum og úti­búum Lyfju um allt land, auk net­verslunar Lyfju. Unnið sé að dreifingu um þessar mundir. Nóg verði til, þar sem Lyfja hafi tryggt sér mikið magn.

„Við erum afar á­nægð að geta boðið við­skipta­vinum okkar upp á gæða and­lits­grímur á góðu verði. Eins og ný­birt verð­lags­könnun sýnir glöggt þá var inn­kaups­verð okkar frá inn­lendum birgjum marg­falt út­sölu­verð hjá Costco,“ er haft eftir Guð­mundi Hall­dóri Björns­syni, verk­efna­stjóra við­skipta­þróunar hjá Lyfju.

Guðmundur segir forsvarsmenn Lyfju mjög ánægða með að geta boðið lægra verð á grímum en Costco.
Fréttablaðið/Aðsend

„Við lögðum því mikla á­herslu á að finna gæða grímur á góðu verði og þetta var niður­staðan. Við erum mjög á­nægð með að geta boðið lægra verð en al­þjóð­legi risinn Costco og það um land allt. Við tryggðum okkur mikið magn af and­lits­grímum og vonum að Ís­lendingar taki þessu fram­taki vel.“

Þá er haft eftir Guð­mundi að mikið magn and­lits­gríma sé nú til sölu á Ís­landi sem erfitt sér að meta gæðin á.

„Við hvetjum því Ís­lendinga til að kynna sér vel vöruna áður en hún er keypt. Við nefnum þetta sér­stak­lega vegna þess að við höfum fengið mörg til­boð á and­lits­grímum sem ekki stóðust nánari skoðun.”