Lyf og heilsa kom nýverið að fjármögnun á félagi sem fer með um 70 prósenta hlut í Landhóteli, sem er fjögurra stjörnu hótel í Landsveit á Suðurlandi. Það er við Þjóðveg 26 eða Landveg. „Hótelið er vel staðsett. Það er stutt í náttúruperlur á borð við Landmannalaugar og Heklu,“ segir Sigurður Ólafsson, stjórnarformaður Lyfja og heilsu, í samtali við Markaðinn.

„Ferðaþjónusta er spennandi atvinnugrein um þessar mundir. Auk þess standa öflugir frumkvöðlar að rekstrinum, þar með talin hjónin Dýrleif Guðmundsdóttir og Magnús Ólafsson sem reka hótelið. Það skiptir sköpum þegar fjárfest er í fyrirtækjum að þar sé öflugt fólk um borð,“ segir hann. Félag í eigu Magnúsar er stærsti hluthafi Landhótels.

Landhótel var opnað sumarið 2019. Eftir rúmlega hálft ár í rekstri skall á Covid-19 heimsfaraldurinn og við það dró verulega úr ferðalögum í heiminum. Af þeim sökum hefur þurft að endurskipuleggja fjárhag félagsins. Þrátt fyrir algjört tekjufall var rekstrarsagan stutt og átti hótelið því ekki rétt á tekjufallsstyrk frá stjórnvöldum. Hluthafar Landhótels eru sjö, að sögn Sigurðar, þar á meðal er frumkvöðullinn Guðmundur Björnsson sem keypti land í um 20 mínútna fjarlægð frá Hellu og reisti þar téð hótel, auk þriggja erlendra fjárfesta.

Landhótel er með 69 herbergi og þrjá fundarsali. Það stendur ekki við þjóðveg 1 en hluthafar binda vonir við að þegar Hvammsvirkjun verði reist verði byggð brú yfir Þjórsá. „Við það mun vegtengingum til Landhótels fjölga,“ segir Sigurður. Lyf og heilsa hafa áður fjárfest í óskyldum rekstri. Samstæðan á meðal annars Kamba sem er einn stærsti framleiðandi á gluggum, hurðum og gleri á Íslandi með um 2,5 milljarða í veltu.