„Við höfum lækkað verðið og getum raunar ekki lækkað það meira þar sem það er nú komið undir byggingar­kostnað,“ segir Hildi­gunnur Haralds­dóttir arki­tekt en hún er við­mælandi fjöl­miðilsins Bloom­berg í viðtali sem birt var í dag.

Hildi­gunnur, sem vinnur hjá arki­tekta­stofunni Húsi og skipu­lagi, býr í ný­byggðri lúxus­í­búð á Tryggva­götu 13 sem hún hannaði fyrir fyrir­tæki hennar T13 ehf en það er meðal eig­enda lóðarinnar. Í­búðirnar eru 38 talsins í fjöl­býlinu. 

Í um­fjöllun Bloom­berg segir að frá því að í­búðirnar fóru í sölu hafi að­eins 20 selst. Blikur séu á lofti, og þær eig­endum lóðarinnar og í­búðanna ekki endi­lega í hag. Er vísað til efna­hags­spár Seðla­banka Ís­lands um að hag­vöxturinn í ár verði sá lægsti síðan 2012, eða 1,8 prósent. Þá hafi hægst á komum ferða­manna til landsins en Isavia greindi frá því ný­verið að spár geri ráð fyrir sam­drætti upp á 2,4 prósent í ár. 

Bent er á að byggja þurfi um átta þúsund íbúðir til að laga ástandið á húsnæðismarkaðnum. Staðan á fast­eigna­markaðnum hafi róast að undan­förnu og dregið úr verð­hækkunum. Verð nýrra í­búða, þar sem fer­metra­verð er yfir 800 þúsund krónum, hafi hækkað um 17 prósent á milli áranna 2017 og 2018 en verð annarra í­búða að­eins um 3 prósent á sama tímabili.

Er það haft eftir Ás­geiri Jóns­syni, dósent í hag­fræði við Há­skóla Ís­lands, að það kæmi honum ekki á ó­vart ef verð lúxus­í­búða myndi lækka enn frekar. Ný­byggðar í­búðir hafi að undan­förnu höfðað til þeirra sem leita sér að lúxus­hús­næði. Sá markaður kunni að vera mettaður nú.