Tómas Haf­liða­son, fram­kvæmda­stjóri Ís­hússins, stærsta sölu­aðila loft­viftna hér­lendis, segist í sam­tali við Frétta­blaðið vera orð­laus yfir eftir­spurn eftir viftum í kjöl­far frétta af lús­mýs­far­aldrinum svo­kallaða.

Eins og fram hefur komið hefur bitum vegna lús­mýs hér­lendis farið fjölgandi og fólk deilt myndum af slæmum bitum í svo til nánast öllum hverfum Reykja­víkur en ó­værunnar varð fyrst vart fyrir al­vöru árið 2015 í Kjósinni. Hefur fólki verið ráð­lagt að hafa viftur í svefn­her­bergjum sínum, sem blási ó­værunni í burtu og Tómas hefur orðið var við það.

Seldi meira síðustu tvær vikur en síðustu tvö ár saman­lagt

„Ég hef bara aldrei lent í öðru eins, það er bara svo­leiðis,“ segir Tómas léttur í bragði þegar hann er spurður hvort að for­sprakkar Ís­hússins hafi tekið eftir meiri sölu á viftum í sumar.

„Ertu ekki að grínast, þetta er ekki einu sinni eitt­hvað sölu­trikk, þetta er bara fá­rán­legt,“ segir Tómas. „Við auð­vitað gerðum okkur grein fyrir því miðað við sumarið í fyrra þar sem var mikið að gera, að við þyrftum að panta meira í ár og pöntuðum meira en nokkru sinni fyrr, heilan gám,“ segir Tómas.

„Hann seldist upp á nokkrum dögum þannig við pöntuðum annan með hraði. Hann seldist upp á tveimur dögum. Ég er búinn að selja meira á seinustu tveimur vikum af svona viftum heldur en síðustu tvö ár saman­lagt,“ segir Tómas.

Allir símar rauð­glóandi og fastakúnnar ná ekki inn

Hann segist ekki hafa undan við að svara sím­tölum frá fólki og hafi meðal annars þurft að ráða sumar­starfs­mann vegna þessarar gífur­legu eftir­spurnar.

„Síminn stoppar ekki. Ég er bara í því núna að taka upp símann og tjá fólki að vifturnar séu upp­seldar. Elko, Byko og Húsa­smiðjan eru öll að benda fólki á okkur, því að þegar þeir eiga ekki viftur höfum við alltaf átt þær til, enda viftu­búðin og þeir taka miklu minna úr­val en við alltaf átt nóg á lager,“ segir Tómas og segir að eftir­spurnin eftir viftum sé miklu fyrr á ferðinni núna heldur en undanfarin ár.

„Núna erum við búin að panta þriðja gáminn sem er á leiðinni. Því þetta er allt annað núna og er að koma inn miklu miklu fyrr en í fyrra og eftir­spurnin á miklu stærra svæði. Í fyrra var þetta í Kjósinni, ein­hverjir svona sumar­bú­staða­kallar, núna er þetta bara fólk í út­hverfum Reykja­víkur að koma með hundrað stungur,“ segir Tómas.

Þannig þið rekjið þetta bara beint til lús­mýsins?

„Það er engin spurning. Auð­vitað er gott veður en við hugsuðum ekkert um það. Við fundum það í fyrra að þá byrjaði þetta og um­ræðan fór af stað um þessar flugur. Í hitt í fyrra var þetta pín­ku­lítið,“ segir Tómas.

„Fólk er að koma og segja okkur að barna­börnin hafi lent inni á spítala með stungur og að þeim vanti ein­hverja lausn svo að fólk geti sofið í húsinu þeirra,“ segir Tómas. „Ég er kominn með frænda minn að svara í símann af því að það eru bara allir símar rauð­glóandi. Venju­legir við­skipta­vinir ná ekki inn, fastakúnnar, af því að það er ekki hægt að svara símanum og ég hef verið að gefa þeim upp gemsann minn,“ segir Tómas.

„Við erum með fimm línur og það fá bara allir sömu svörin í sí­fellu, því miður er þetta búið í augna­blikinu.“

Ýmsir hafa verið illa bitnir vegna mýsins undanfarna daga.
Fréttablaðið/Getty

Er­lendir birgjar gáttaðir á eftir­spurninni

Tómas segir að hann hafi verið lengi í viftu­bransanum en aldrei séð nokkuð þessu líkt og þeirri eftir­spurn sem upp sé komin eftir viftum í ár vegna lús­mýsins.

„Þetta er bara al­gjör­lega klikkað. Ég er búinn að vera með þetta í tuttugu ár og við höfum aldrei verið ná­lægt því að lenda í sam­bæri­legu rugli og þessu,“ segir Tómas. Hann segist spurður ekki vera með fjölda vifta sem selst hafi hingað til á hreinu en segir þær telja þúsundum.

„Þær telja klár­lega þúsundum. Hingað til hafa selst svona tvö­hundruð svona sumar­lyftur eins og við köllum þær. En núna að þá eru er­lendu birgjarnir okkar gáttaðir. Þeir spurðu okkur bók­staf­lega hvað væri að gerast á Ís­landi, hvort það væri hita­bylgja á Ís­landi,“ segir Tómas og hlær.

„Við svöruðum bara nei nei, það er svona fluga sem allir eru að koma út af og þeir voru auð­vitað bara já­kvæðir,“ segir Tómas og segir að venju­lega taki sendingar á slíkum viftum sinn tíma en hann hafi þurft að fá vifturnar þetta sumarið með hraði.

„Þeir hafa verið nokkuð al­menni­legir svo ég er að fá hrað­sendingu núna aftur, í þriðja skiptið,“ segir Tómas.

Standviftur seljast mest.
Fréttablaðið/Getty

Stand­vifturnar vin­sælastar

Hann segir að vifturnar sem hafi selst mest séu stand­viftur sem nái að blása yfir fólk sem liggi í rúmum sínum.

„Það sem selst mest eru stand­vifturnar, þannig að gusturinn sé á líkamann á þér. Ef þú færð þér svona litla borð­viftu þarf hún að vera á nátt­borðinu og nær þá ekki yfir allan líkamann, svo þessar stærri eru vin­sælli,“ segir Tómas.

„Svo hefur fólk líka verið að fara í svona varan­legar loft­viftur sem eru settar upp í her­bergjunum en þær eru auð­vitað bara upp­seldar líka,“ segir Tómas.

„Þetta er gjör­sam­lega klikkað. Í gær þá hugsaði ég bara að ég yrði að segja ein­hverjum þetta, þar sem það var allt að vera klikkað,“ segir Tómas.

Veit ekki um neina búð sem enn á viftu

Hann býst við næsta gám mjög fljót­lega en veit ekki hvernig júní og júlí munu verða. „Það er stærsta á­hyggju­efnið okkar núna að við munum ekki eiga nóg ef þessi eftir­spurn heldur á­fram í júlí og júní, því birgjarnir okkar vilja að við pöntum með dá­góðum fyrir­vara, enda höfum við verið að panta ó­trú­legt magn af þessu,“ segir Tómas.

„Ég held að seinasta sumar­viftan sé upp­seld og miðað við þær á­bendingar sem við höfum fengið frá fólki þá eru slíkar viftur upp­seldar úti um allt. Við bentum á Elko og Elko á okkur, þannig þetta virðist allt saman vera búið. Allar upp­seldar, þetta er bara magnað.“