Lucinity hefur landað samningi við einn af stærstu bönkum heims sem felur í sér víðtæka innleiðingu á hugbúnaðarlausn sem íslenski fjártæknisprotinn hefur þróað fyrir banka til að verjast peningaþvætti og öðrum fjárglæpum. Stjórnendur Lucinity eru komnir í viðræður við fjármálastofnanir víða um heim.

„Samningar gerast ekki mikið stærri en þessi þegar markmiðið er að byggja upp vörumerki í hugbúnaðarlausnum fyrir fjármálageirann,“ segir Guðmundur Kristjánsson, stofnandi fjártæknisprotans Lucinity, í samtali við Markaðinn.

Samkvæmt heimildum blaðsins er samningurinn stærri en síðasta hlutafjáraukning sem nam tveimur milljónum bandaríkjadala, jafnvirði 280 milljóna króna. Umfangið hleypur á hundruðum milljóna.

Guðmundur stofnaði Lucinity haustið 2018 eftir að hafa starfað sem yfirmaður samskiptaeftirlits og gervigreindar hjá fjármálarisanum Citigroup í þrjú ár. Hugbúnaðarlausnin Lucinity vinnur úr upplýsingum um allar aðgerðir viðskiptavina fjármálafyrirtækis og nýtir sér gervigreind til að finna grunsamleg hegðunarmynstur.

Guðmundur segir að mikil gróska sé í vörnum gegn peningaþvætti en núverandi kerfi þyki gamaldags og úr sér gengin.

„Kerfin og ferlar bankanna leika lykilhlutverk í að takmarka flæði illa fengins fjármagns til hræðilegs iðnaðar eins og mansals, innflutnings fíkniefna og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Því er þörf á nýsköpun og hefur Lucinity gengið á lagið,“ segir Guðmundur.

Trúnaðarákvæði í samningum kemur í veg fyrir að hann geti nafngreint fjármálafyrirtækið að svo stöddu, en um er að ræða alþjóðlegan bandarískan banka sem er á meðal stærstu banka heims.

„Við munum sjá um eftirlit með peningaþvætti á framendanum, þ.e.a.s. starfseminni sem snýr að viðskiptavinum, en einnig með aðgerðum starfsmanna (e. conduct surveillance) og samskiptum. Hugbúnaðarlausn okkar verður þannig útvíkkuð til að hafa eftirlit með mismunandi tegundum fjárglæpa,“ segir Guðmundur.

„Við erum komin á þann stað að við erum í samtölum við banka úti um allan heim, allt frá Bandaríkjunum til Singapúr.“

Stórir bankar geta verið svifaseinir í ákvarðanatöku og sprotafyrirtækjum getur reynst erfitt að komast í gegnum flókið samþykktarferli. Ferlið gekk þó hratt fyrir sig, sérstaklega í ljósi þess að bankinn var að skipta út kerfum sem hann hefur notað til margra ára.

„Þau voru fljót að meta hugbúnaðarlausnina og ákveða að innleiða hana. Okkar lausn kemur í staðinn fyrir hugbúnaðarlausn fyrirtækis sem nú er með stærstu hlutdeildina á markaðinum. Það er ekki aðeins viðurkenning að hafa verið valin af þessum banka heldur einnig að okkar vara hafi verið valin fram yfir þær vörur á markaðinum sem eru leiðandi í dag,“ segir Guðmundur og bætir við að í dag sé mikill meirihluti banka að kaupa eftirlitshugbúnað frá sex stærstu fyrirtækjunum á þessu sviði.

„Við erum komin á þann stað að við erum í samtölum við banka úti um allan heim, allt frá Bandaríkjunum til Singapúr, sem eru að íhuga að skipta hugbúnaðarlausn Lucinity inn fyrir lausnir frá þessum stórfyrirtækjum. Aftur á móti ætlum við að tryggja að fókusinn sé á réttum þáttum til þess að við getum þjónustað viðskiptavini okkar eftir fremsta megni,“ segir Guðmundur.

Vilja nýta meðbyrinn

Spurður hvaða þýðingu samning-urinn hafi fyrir reksturinn segir Guðmundur að Lucinity þurfi ekki að ráðast í aðra hlutafjáraukningu í bráð.

„Hins vegar erum við að að skoða þann möguleika að taka inn aðeins meira fjármagn til þess að geta nýtt þennan meðbyr og stækkað hraðar. Við sjáum fram á að byggja upp sterkari söluher erlendis og við höfum einnig hafið vinnu með erlendum samstarfsfyrirtækjum til þess að byggja upp vörumerkið Lucinity,“ bætir hann við.

Síðasta sumar var greint frá því að Lucinity hefði safnað sprotafjármagni fyrir tvær milljónir dollara, jafnvirði 280 milljóna króna miðað við núverandi gengi. Þá hlaut fyrirtækið nýverið Sprett, hámarksstyrk Tækniþróunarsjóðs, sem nemur 70 milljónum króna.

Hefur heimsfaraldur COVID-19 haft áhrif á fyrirætlanir Lucinity?

„Við erum að bjóða lausn sem býr til meiri hagkvæmni í eftirlitsstarfsemi. Það skiptir auknu máli í erfiðu rekstrarumhverfi eins og við erum að sjá í dag. Síðan er hitt, að miklum sveiflum á mörkuðum fylgir jafnan aukning í grunsamlegu og ólöglegu athæfi í fjármálakerfinu. Þá þarf að grípa til aukinnar fjárfestingar og tryggja að verið sé að nýta nýjustu tækni til að halda í við fjárglæpastarfsemina.“ segir Guðmundur.

Kvika var fyrsti bankinn til að innleiða hugbúnaðarlausnina í lok nóvember en við tilefnið sagði Marínó Örn Tryggvason, bankastjóri, að ör vöxtur kallaði á aukna fjárfestingu til þess að viðhalda ströngum öryggiskröfum.

„Það er ánægjulegt að geta stofnað til samstarfs við íslenskt sprotafyrirtæki, sem við trúum að verði leiðandi afl á alþjóðlegum markaði þegar kemur að gæðum og skilvirkni varnarkerfa gegn peningaþvætti,“ sagði Marínó Örn.