Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur ákveðið að taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group. Skilaði sjóðurinn fyrr í dag inn skuldbindandi tilboði fyrir umtalsverðum eignarhlut í flugfélaginu, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins.

LSR er í dag fjórði stærsti hluthafi Icelandair með 8,25 prósenta hlut. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins setti LSR inn tilboð sem gerir ráð fyrir að eignarhlutur sjóðsins muni ekki þynnast út við hlutafjárútboðið sem þýðir að hann hafi skráð sig fyrir að lágmarki tæplega tveggja milljarða króna hlut.

Þá hafa einnig fleiri lífeyrissjóðir sett inn skuldbindandi tilboð fyrir hlut í útboðinu. Aðrir stærstu lífeyrissjóðir landsins – Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE), Gildi og Birta – eiga hins vegar enn eftir að skila inn tilboðum.

Stjórn Birtu kom saman til fundar síðla dags í gær til að taka ákvörðun um mögulega fjárfestingu í Icelandair og þá fundaði stjórn Gildis í morgun.

Samanlagður eignarhlutur LSR, Gildis, LIVE og Birtu í Icelandair í dag nemur um 34 prósentum.


Icelandair freistar þess að auka hlutafé félagsins með því að selja nýja hluti á genginu 1 króna á hlut fyrir alls 20 milljarða króna. Komi til umframeftirspurnar mun stjórn hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að þrjá milljarða. Þá hefur félagið náð samkomulagi við Íslandsbanka og Landsbankann um sölutryggingu og munu bankarnir kaupa hlutafé fyrir allt að sex milljarða króna ef ekki næst að selja allt sem boðið er út.

Hlutafjárútboð Icelandair hófst í gærmorgun og lýkur í dag klukkan fjögur.