Raunávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóðs landsins, var 10,9 prósent á síðasta ári. Var ávöxtun sjóðsins sú hæsta á landinu, að því er kemur fram í ársreikningi LSR. Stjórn sjóðsins samþykkti reikninginn á fundi sínum í gær.

LSR var með hæstu ávöxtun meðal stærstu lífeyrissjóða landsins, örlítið hærri en Lífeyrissjóður verslunarmanna, næst stærsta sjóðsins sem var með 10,8 prósent raunávöxtun.

Heildareignir LSR stóðu í 1.168 milljörðum króna í árslok 2020 og voru hreinar fjárfestingartekjur um 152 milljarðar króna á árinu. Raunávöxtun B-deildar var 12 prósent.

LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins, en eignir sjóðsins nema um fimmtungi af heildareignum allra íslenskra lífeyrissjóða. Til samanburðar má einnig nefna að heildareignir sjóðsins við árslok jafngiltu um 40 prósent af vergri landsframleiðslu á síðasta ári.

Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm ára var 6,4 prósent og síðustu tíu ára 6,5 prósent.

Á árinu greiddi sjóðurinn lífeyri til 27.094 sjóðfélaga að meðaltali og námu greiðslurnar alls rúmum 68,9 milljörðum króna. Þá greiddu að meðaltali 32.837 sjóðfélagar iðgjald til sjóðsins á árinu.